06 janúar 2006

og svo öll plönin

jamm ég gerði víst drög að langtímaplani í upphafi ársins 2005

núna er ég auðvitað búin að breyta langtímaplaninu töluvert, en var þó nokkuð dugleg í fyrra að standa við það sem ég sagðist ætla að gera (klára gamla planið, flytja, skipta um vinnu, læra meiri pródúseringu - allt gerðist þetta 2005).

nýtt 5 ára plan:


  • klára tónvinnsluskólann (gerist í byrjun feb)

  • undirbúa að sækja um tónsmíðanám með því að:
    • læra meira á píanó (helst að eyða næsta vetri í það og æfa sig í 2 - 3 tíma á dag)

    • verða betri í tónheyrn og nótnalestri

    • læra hljóðfærafræði

    • semja meira


  • sækja um tónsmíðanám með það að markmiði að byrja haustið 2007

  • ef það mistekst, halda áfram að undirbúa og reyna aftur



svo á bara eftir að koma í ljós í hvaða landi þetta gerist allt saman, en ég held að ég sé nú frekar á því að læra tónsmíðarnar í Danmörku, hvort sem við Andrés endumst eða ekki ;)
en ef allt fer vel, þá lætur maður sig auðvitað líka dreyma um kríli...

2005 - það helsta

sumsé:


  • Byrjaði í Pílates

  • Skrímslið fannst

  • Konið flutti út

  • nýr Sambó flutti inn

  • það voru gerð 4 göt á mallann og skrímslið var fjarlægt

  • ég hvarf í mánuð

  • en dó samt ekki

  • fæddist aftur - og gerði mér einhverra hluta vegna fulla grein fyrir því

  • fann svörin sem ég leitaði að allt árið 2004

  • lagði ímyndunarveiki að mestu til hliðar (en ekki ímyndunaraflið - það gerist vonandi aldrei ;)

  • hélt áfram að semja

  • ofkeyrði mig

  • missti röddina

  • lauk 8. stigi í söng (og hljómfræði)

  • hélt tónleika í tilefni af því

  • tók upp lag eftir mig í Langholtskirkju

  • naut kalda sumarsins með stelpunum í Dívuráðinu

  • flutti úr Vesturbænum í Hlíðarnar - betri íbúð, verra hverfi

  • enn einn nýr sambó flutti inn

  • fór í æðislegt sumarfrí

  • varð skotin í Köben

  • varð skotin í Andrési Köbenbúa

  • byrjaði í nýrri vinnu

  • byrjaði í nýjum skóla

  • flakkaði mikið á milli landa



allt í allt: mjög gott og nauðsynlegt ár, þrátt fyrir erfiðar hríðir við endurfæðingu - það er æði að vera svona endurfædd og seinni hluti ársins var meiriháttar :)

Hingaðtil

jæja, er ekki kominn tími á nokkur áramótauppgjörsblogg??
þar sem líf mitt hófst í þriðja sinn á síðasta ári, þá er kannski bara fínt að fara stuttlega yfir lífin 2 þar á undan, frá byrjun
(ég efast reyndar um að neinn hafi áhuga á að lesa þetta - er bara mest svona fyrir sjálfa mig):

Líf 1:
1977 -> gott ár, að mestu varið í hlýjum mjúkum vökva við að búa til líffæri :)
1978 -> gott ár, skírð Dagbjört, og hef alltaf verið mjög sátt við það
1979 -> gott ár, er eitthvað slæmt þegar maður er 2ggja?
1980 - 1982 -> góð ár í Mávahlíð og Sólhlíð með vinkonum vinum og kærasta
1983 -> gott ár, loksins mátti ég byrja að læra að lesa!
1984 -> gott ár, lærði að lesa :D
1985 -> gott ár, fékk æðislega litla frænku
1986 -> gott ár, kom í sjónvarpinu
1987 -> gott ár, fluttum til Edinborgar (ævintýramennska hófst)
1988 -> gott þangað til við fluttum heim aftur - ævintýrafólk blandast illa í íslenska grunnskóla :(
1989 -> erfitt ár, lagðist í 4gra ára dvala sem ég eyddi að mestu í ævintýrabókum ýmisskonar
1990 -> dvali, eitt leiðinlegasta sumar allra tíma
1991 -> áframhaldandi dvali, en engu að síður skárra en næstu 2 á undan
1992 -> vont ár, og meiri dvali
Líf 2:
1993 -> yndislegt yndislegt ár! Líf mitt hófst að nýju! MH! Loksins nýjir vinir!
1994 -> meira yndi í MH, bast (vin)koninu eilífum böndum
1995 -> að mestu frábært, síðbúin gelgja fór að færast yfir, mikið fjör ;)
1996 -> ævintýramennskan fullkomnuð, Ísrael, Egyptaland, og fleira...
1997 -> alveg fínt bara, kærasti, Háskóli oþh. fullorðinsheit
1998 -> úff soldið misheppnuð ævintýri... en ég byrjaði í Söngskólanum!
1999 -> ahemm, má ég ekki bara sleppa því ári? ímyndunarveiki á háu stigi
2000 -> æði æði æðislegt ár! Við tvær áttum heiminn (ég og konið)
2001 -> fyrrihluti Kanada var ekkert sérstaklega æðislegur, en mjög nauðsynlegur
2002 -> seinnihluti Kanada var æði. ennþá meira æði að flytja heim :)
2003 -> sumt gott, sumt vont, samdi fyrsta sönglagið :) var pínu ímyndunarveik
2004 -> sumt betra, sumt ekki, varkár, söng betur, leitaði árangurslaust að svörum, samdi meira, flutti loksins inn með koninu, lagði aðeins of hart að mér...

jamm og þá erum við komin að 2005
og það á nú alveg skilið sér blogg, er það ekki?

:D

03 janúar 2006

komin heim á Frón...

...eftir 17 daga á hinu heimilinu mínu, í Köben

orðin vön því að rumska á nóttunni til að kúrast betur hjá Andrési
en í nótt
þegar ég rumskaði
var enginn Andrés til að kúra sig hjá
bara kalt og tómt rúm :(

muh!

erfiður mánuður framundan
puð í vinnunni
puð í skólanum

en þó
bara einn mánuður eftir

og svo?

veitiggi
þó er einhvers konar nýtt 5 ára plan að hreiðra um sig í hausnum á mér

en meira um svoleiðis seinna

ég er of kvefuð til að skrifa eitthvað skemmtilegt eða áhugavert, og ef kona getur það ekki, þá er bara best að sleppa því að blogga meira í bili.


þó að lokum:

takk allir fyrir frábær viðbrögð við jólalaginu - þau voru einmitt það sem ég þurfti á að halda :D

og takk kærlega fyrir jólakortin - ég las þau áður en ég leið útaf í nótt, nýkomin úr fluginu heim.


knús og kossar allir,

:Dagbjört dísulísa

p.s. jólin voru auðvitað alveg hreint yndisleg :) en meira um þau seinna...

13 desember 2005

jólalagið komið

Mín jól heitir það og það má finna það hér

þetta er bara voða svona lítið og sætt, svo líklega fáið þið bara venjuleg kort og svo megið þig hlusta á þetta héðan eins mikið og ykkur langar.

en ef einhvern langar sérstaklega í disk, þá er auðvitað hægt að koma því til leiðar ;)

njótið vel

:Dagbjört jóladís

p.s. ef þið náðuð því ekki þá er lagið hér

p.p.s þúsund þakkir Hr. Muzak fyrir að lána mér þennan frábæra mike

p.p.p.s. takk yndislegasti Andrésinn minn fyrir innblásturinn ;)

10 desember 2005

einhverskonar jólatexti

þá er ég komin með smá textamynd fyrir jólalagið
allar ábendingar vel þegnar
(nema hvað ég veit vel að brott og nótt og kjöt og naut ríma ekki, þetta kallast hálfrím):

Þó öll fönnin fjúki brott
falli regn á jólanótt
ofsaveður öskri ljótt
ef að þú ert hjá mér
held ég mín jól

Hvort sem ég fæ hangið kjöt
holdagrísi, kalkún, naut
eða bara mjólk og graut
ef að þú ert hjá mér
held ég mín jól

ég þarf ekki nýjan kjól
ég þarf hvorki snjó né sól
þú ert allt mitt ljós og skjól
og ef þú ert hjá mér
ég held mín jól

Ég þarf enga pakka' að fá
hvorki í bók né spil að spá
verðir þú mér ætíð hjá
er það besta gjöfin
öll mín ævijól

nú er bara málið að finna nógu gott nafn á lagið...
einhverjar hugmyndir?

:D

09 desember 2005

Viðutan stússisti

stundum getur kona verið svo utan við sig...

ég breytti byrjuninni á Tunglsgeislanum (synkópunni) en gleymdi svo að breyta sama stað í 2. og 3. erindi. því fór svo að Hanna Þóra söng upphaflegu synkópuna (2x5 fjórðupartar) alls staðar, og því er lagið nú aftur orðið eins og það var upphaflega.

jamm, Tunglsgeislinn hefur nú loksins verið frumfluttur, og vá hvað Hanna Þóra gerði það yndislega vel! Röddin hennar er eins og glitrandi tunglsgeisli, enda samdi ég lagið fyrir hana.
það eru svo frábær forréttindi að fá að semja fyrir ákveðna söngvara. engar tvær raddir eru eins og það er svo gaman að hugsa hvert lag útfrá viðkomandi rödd. þetta er svo einstakt og yndislegt hljóðfæri.
svo hefur röddin líka svo sterk áhrif á okkur mannfólkið

annars er það af desemberstússinu að frétta að lagvinnslan gengur bara svona þokkalega. það hefur verið mikið að gera í vinnunni undanfarið, svo skólinn hefur etv. ekki fengið alla þá athygli sem ég hefði viljað, en það er próf í næstu viku og ég ætla að nota tækifærið og reyna að tjasla saman einu jólalagi í Reason, sem nokkurs konar undirbúningi.
jamm, loksins komin með Reason, og því ekki seinna vænna að taka góðan slurk í að reyna að læra á það.
Hr. Muzak var svo sætur að lána mér almennilegan mike, og lagið samdi ég einhvern morguninn fyrir skömmu, í nett þjóðlegum fílíng
útsetningin á að vera voða einföld, með hæfilegu magni af Reason fikti, gaman gaman!
það eina sem vantar er textinn!

púff, ég geri svo miklar kröfur til íslenskra texta að ég get ómögulega staðið undir þeim sjálf :(
kannski ég leiti bara að einhverju gömlu og góðu...

eða kannski ég vaki fram á nótt í nótt við að textast
oftast er það best...

bleah

annars ekkert jólastress
ég þarf bara að kaupa 3 gjafir áður en ég fer út, og ég veit svona nokkurn veginn hvað þær eiga að vera :)
svo verður restin versluð í Köben eða Malmö, allt eftir því hvað við skötuhjúin komumst yfir

var ég búin að segja ykkur að ég fer til Köben 16. des
og í jólafrúkost 17. des
(jólafrúkostur er dönsk matarveisla sem stendur frá um 11 á morgnanna og fram yfir miðnætti)
og svo til Norge með næturlestinni 22. des
og ég er ekki búin að kaupa miðana heim
hvorki frá Norge til Köben
né frá Köben til Íslands

það bíður betri tíma og meiri upplýsinga
frá lestarfélagi og skóla :þ

jæja, nóg blaður í bili
vonandi hef ég tíma um helgina til að uppfæra Tunglsgeislann til baka
náðarsamlegast hlustið hvorki á hann né prentið þangað til

ykkar dísulísuskvísa

:Dagbjört

05 desember 2005

Draumajól

ímyndið ykkur risastórt timburhús á tveimur hæðum sem stendur í brattri hlíð í ævintýralandi.
allt er á kafi í snjó og útsýnið er stórfenglegt, yfir snæviþakin fjöll og ísilögð vötn.
það er Þorláksmessumorgunn og næstum allir eru komnir
2 afar
1 amma
2 pabbar
2 mömmur
5 börn á aldrinum 0 - 9 ára

útidyrnar opnast og inn gægist ungt og ástfangið par
frænkan og ævintýraprinsinn hennar
þeim er auðvitað báðum tekið fagnandi, og fá eitthvað gott í svanginn áður en þau drífa sig út í gríðarmiklar snjóhúsaframkvæmdir ;)
svo er auðvitað örlítið stússast í eldhúsinu, enda þarf að grafa lax, gera ís og ananasbúðing og sjóða hangikjötið - mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm :)

á aðfangadagsmorgun fara allir í sund og hamast og busla um og verða tandurtandurhreinir
svo er farið heim í graut :)
einhvern veginn reynum við svo að stytta börnunum stundirnar, en borðum samt frekar snemma svo þau verði ekki orðin alveg uppgefin greyin
eitthvað verður erfitt að koma fyrir pökkum handa 14 manns...
...en allir fá þá eitthvað fallegt
og að minnsta kosti eina bók ;)

á jóladag búa frænkan og amman til alvöru heitt súkkulaði (úr íslensku suðusúkkulaði) og allir gæða sér á heimabökuðu brauði og smákökum í brunch, ennþá í náttfötunum
svo er slakað á allan daginn, lesið, spilað á spil, farið út ef veðrið er gott, borðað hangikjöt og já, slakað á...
og allir eru saman
allir!
mamma, pabbi, storesös og allir hennar, storebror og öll hans, ég OG Andrés!

*ljóm*

ég vona bara að ég vakni ekki einn góðan veðurdag og komist að því að mig sé barasta að dreyma...

hlakkihlakkihlakkihlakk

22 nóvember 2005

bara svona smá draumórar

í dag spurði ég Andrés hvort við gætum haft eplatré í garðinum
svona eins og í ævintýrunum
hann stakk uppá því að við flyttum á lítinn sveitabæ í Jótlandi
mmmmmmm
með eplatrjám og perutrjám
og fullt af útivistarsvæði
samt allt svo flatt að kona fer allra sinna ferða hjólandi

sé þetta alveg fyrir mér
semja, spila á hljóðfærin
vinna stundum
leika við fullt af ljóshærðum sprækum börnum
úti og inni
týna epli og perur og ýmislegt fleira og borða beint af tránum

svo myndi kona þurfa (og vilja) taka á sig nokkrar bóndakonuskyldur
svo sem að búa til skyr
og baka flatbrauð
og venjulegt brauð
og kanelsnúða
og einstaka sinnum kleinur og kókosbollur með aðstoð krakkanna

já, maður tengir jú mikið af góðu bakkelsi við sveitina

jamm, og hver veit nema við fengjum okkur hund þegar elstu börnin væru orðin nógu stór...


annars er það af raunveruleikanum að frétta að lagið sem ég er að vinna í fyrir skólann þokast áfram smátt og smátt
ég hef svo mikið að gera að ég fæ næstum samviskubit þegar ég stelst til að tala við Andres (en ég stelst nú samt ;)
þessi vika verður ansi strembin, en það er allt í lagi, því ég fæ svo æðisleg verðlaun í vikulokin...

...loksins loksins loksins er það Köben um helgina!

:D

12 nóvember 2005

nóvember og píanó

nóvember kom og allt í einu var allt komið á fullt.
ég skil ekki alveg hvernig það gerðist, en einhverra hluta vegna grunar mig að þetta hafi alltaf verið svona. þ.e.a.s. að nóvember hafi alltaf verið svona.

nóvember er mánuður vina minna, því stór hluti af mínu uppáhaldsfólki á afmæli í nóvember. nóvember er líka mánuðurinn þar sem allir eru að reyna að klára allt fyrir desember. mánuðurinn þegar allir vilja hittast til að lýsa upp skammdegið. já nóvember er skemmtilegur mánuður, en það er ekki mikill tími til að blogga ;)

stundum á ég að vera á 2 eða 3 stöðum á sama tíma og flestar vikur enda á því að ég hafi einhverra hluta vegna ekki fengið fullan svefn. en þetta er auðvitað allt saman svo skemmtilegt að það eina sem ég get kvartað undan er að hafa ekki nægan tíma til að setjast fyrir framan píanóið mitt og fá andann yfir mig. Nóg er nú af lögum sem ég þarf að klára...

já píanó píanó píanó
loksins píanó!
í sumar var ég búin að ákveða að steypa mér í 2ggja ára skuldabréf uppá 800 kílókrónur til að eignast virkilega gott píanó.
svo varð ég ástfangin og ákvað að 2ggja ára skuldbindingar á Íslandi væru bara alls ekki sniðugar. en mig vantaði píanó.
svo það varð úr að mamma lánaði mér gamla píanóið mitt sem við höfum annars gert óskrifaðan (og ómæltan) samning um að verði alltaf hjá henni. það er sumsé núna komið tímabundið til mín, og ég reyni að láta það duga, þó áslátturinn sé það stífur að stílbrigði eins og tremolo og píanissímó eru forréttindi sem ég fæ ekki að njóta.
það er samt svo óendanlega betra en ekki neitt, og yndislegt að geta sest við það og glamrað og glamrað upp úr mér í ró og næði.

reyndar fer ég bráðum að halda að ró og næði séu einhvers konar goðsögn. trúið þið að þau séu til í raun og veru?

26 október 2005

norrænir karlmenn, femínismi og fleira



1. hluti: norrænir karlmenn og störf...
af gefnu tilefni langar mig að bæta örlitlu við gamalt blogg um íslenska karlmenn
mig langar að bæta því við að aðrir norrænir karlmenn eru að öllum líkindum alveg jafn yndislegir og þeir íslensku og á vissan hátt hafa þeir það betra skinnin, því í þeirra samfélagi er ekki ætlast til þess að þeir verði LLVV (læknar, lögfræðingar, verkfræðingar eða viðskiptafræðingar). þeir mega vinna á leikskólum og öldrunarheimilum og bara þar sem þeir vilja, og þeir gera það, hugsanlega líka vegna þess að þessi störf eru, að mér skilst, betur borguð og meira metin þar en hér (amk í DK).

einn í vinnunni minni var að benda á að börn gætu alist upp í dag án þess að eiga nein samskipti við fullorðna karlmenn. enginn pabbi á heimilinu. enginn karlkyns leikskólakennari. enginn karlkyns grunnskólakennari.
hljómar skelfilega í mínum huga!
haldiði ekki að íslenskir strákar myndu frekar vinna þessi störf ef þau væru betur borguð?

en hvað er til ráða?
í hvert skipti sem einhverjum dettur í hug að laga þetta og hækkar t.d. laun leikskólakennara, þá verður allt vitaust í næstu kjarasamningum því þá heimta allir samsvarandi launahækkun. þjóðfélagið er bara komið með það á fast að þetta sé láglaunastarf og aðrar stéttir taka ekki til greina að vera með lægri laun...

að þessu leyti get ég því verið sammála femínistanum sem heimtaði byltingu á mánudaginn. það þarf byltingu í því hvernig við mælum laun starfsstéttanna. nýjan mælikvarða. ekki bara fyrir konur, því karlmenn eiga jú líka að eiga þessi efnahagslegan kost á því að vinna við þau störf sem þeir vilja.

ekki að ég sé alveg kommi, en hér er ein skemmtileg pæling: ef öll störf væru jafn vel launuð, við hvað myndir þú vilja vinna?

2. hluti: er ég femínisti?
Andrés þykist hafa komist að því að ég sé í eldrauðum sokkum. líklega vegna þess að ég á það til að tala um sumt af þónokkri ákefð. kannski er ég að töluverðu leyti einhvers konar nýfemínisti, en ég er þó ekki til í að skrá mig í femínistafélagið. eins og ég hef margoft sagt þá er ég bara alls ekki sammála öllu sem þau gera þar. er ekki mikið fyrir öfgar og vanhugsaðar upphrópanir í fjölmiðlum. ég trúi því samt statt og stöðugt að þó það séu alltaf nokkrar sem skemmi fyrir hópnum, þá hati fæstir femínistar karlmenn.
ég er allavega alls ekki þannig femínisti, en hver getur líka hatað karlmenn sem þekkir annan hvern mann á þessum lista ;)

það sem ber samt líklega mest í milli, er hvað ég er ósammála þeim femínistum/jafnaðarmönnum sem virðast hafa misskilið orðið jafn og halda að það þýði eins. í mínum huga eru þetta tvö gerólík orð. mér finnst allt í lagi að viðurkenna að fólk sé ólíkt. að kynin hafi einhverja náttúrulega ólíka eiginleika. (t.d. er bara alls ekki hægt að neita því að karlmenn séu yfirleitt líkamlega sterkari). fólk er líka ólíkt. en engu að síður trúi ég því að það eigi að meta þessa ólíku eiginleika að jöfnu. einn er góður í stærðfræði, annar í mannlegum samskiptum. er annar mikilvægari eða merkilegri en hinn?
við þurfum ekki að vera eins til að vera jöfn. þess háttar misskilningur varð til þess að skapa misheppnaða meðaljóna skólakerfið sem ég ólst upp við og varð til þess að börn sem voru á eftir eða á undan voru einfaldlega utanveltu í skóla. þið munið líklega öll eftir þessu.
það má samt meta ólíka verðleika okkar að jöfnu. já takk :)

og ef ég er eitthvað, þá er ég jafnvægissinni
ég vil jafnvægi á milli þess kvenlæga og þess karllæga
þess náttúrulega og þess tæknilega
þess mannlega og þess hagfræðilega
þess listræna og þess vísindalega
en nú er notkun mín á "þess" komin verulega úr jafnvægi...


jæja, nóg af blaðri.
kannski ég geti sett saman texta fyrir eitt stykki lag í kvöld - fyrir skólann

góða nótt fólk

:Dísulísuskvísan

25 október 2005

nýr Tunglsgeisli

ég breytti stóru synkópunni í Tunglsgeislanum, og telst það núna "upprunalega" útgáfan, þar sem lagið verður frumflutt þannig, vonandi þann 6. des :)
ég vil biðja þá sem hafa prentað út gamla útgáfu af laginu að fá sér nýja. Hér er a moll og hér er f moll, en öll tilbúnu lögin mín má finna hér á síðunni.

málið var að þessi synkópa var bara aldrei rétt. núna er fyrri nótan 3 hálfnótur og hin 2 hálfnótur. ef einhver var búinn að hafa mikið fyrir að reyna að læra þetta hinsegin, ja þá skilur viðkomandi líklega af hverju breytingin var gerð og fyrirgefur mér, enda ekki búið að flytja lagið ennþá :þ

vonandi kemst ég svo til að redda píanói í þessari viku eða um helgina, því ég er alveg að deyja úr píanóþörf fyrir lagið hennar Rannveigar ;)

*knús og kossar*

:Dagbjört

23 október 2005

kærustuskyldur

ég var eitthvað að minnast á raunveruleikastilli
raunveruleikastillir er það sem gerir konu kleift að aðlagast að breyttum aðstæðum
t.d. að flytja á milli landa

minn hefur yfirleitt staðið sig mjög vel
jafnvel stundum of vel, þannig að ég á það til að minna á skógarnornirnar í Ronju:
"sést ekki, er ekki"
þegar ég kemst í frí þá gleymi ég vinnunni
þegar ég skipti um land þá hætti ég að velta mér uppúr því sem er heima
osfrv.

undanfarið hefur mesta aðlögunin verið (fyrir utan nýja íbúð, nýja vinnu og nýjan skóla) að flakka á milli yndislegu Köben, þar sem ég á alvörukærasta, og Íslands, þar sem ég á netkærasta
stundum pínu ringlandi, og það þarf ekki snilling til að fatta hvort er betra ástand ;)

svo allt í einu átti ég alvörukærasta á Íslandi í heila 10 daga
vá!
fyrsta daginn kom hann og sótti mig í vinnuna og við keyptum saman í matinn fyrir sumarbústaðarferð helgarinnar
það hefur aldrei verið jafn gaman í Bónus :)
svo fórum við í sumarbústaðinn og hjúfruðum okkur hvort upp að öðru á meðan eitt stykki íslenskur stormur lét öllum illum látum fyrir utan
kíktum í sund, þegar storminum linnti
elduðum rómó, spiluðum scrabble og fundum upp nýyrði :þ
allt voða kósí og á sunnudeginum löbbuðum við uppá Miðfell áður en við brunuðum í bæinn til að mæta í mat til mömmu...

svo kom mánudagur og þriðjudagur með minni vinnu og mínum skóla og mínum hversdagsleika, en þá var allt í einu karlmaður í hversleikanum mínum, sem keyrði mig og sótti í skólann og spurði "hvað eigum við að hafa í matinn?"
þá fór raunveruleikastillirinn minn að hökta svolítið
ég að pæla í kvöldmat 2 daga í röð???
ekki að ég þyrfti að elda samt, því hann er svaka klár í eldhúsinu og finnst það líka meiriháttar gaman
ég fékk bara nett svona "vá þessi pakki!" tilfinningu
litla sjálfstæðislega ofdekraða ég

en stillirinn hökti svo aftur í gírinn og á miðvikudagskvöldið fórum við að hitta vini hans Andrésar á kaffihúsi. Ég plataði þá á Rósenberg þar sem Svabbi var að trúbast af svo mikilli snilld og innlifun og þvílíkri raddfærni að ég held að vinirnir haldi að það sé frekar lítið á milli eyrnanna á mér.
ég bara gat ekki haldið mig inní samræðunum, því ég þurfti svo mikið að hlusta á Svabba. vá hvað hann var góður! Andrési fannst það líka :)
vona samt að ég hafi ekki staðið mig of illa í þessum kærustuskyldum ;)

á föstudaginn var ég í fríi og við sváfum svo til allan daginn
fyrir utan eitt stykki sundferð, nema hvað!

á laugardaginn hins vegar, var kominn tími á að bæta upp fyrir alla vikuna, og dagurinn var súperskipulagður í að hitta fólk.
svo mín fór í kærustugírinn og sinnti sínum skyldum, sem reyndar voru alls ekki slæmar, enda fólkið hans Andrésar allt frekar létt og hresst :)

enduðum kvöldið hjá koninu mínu sem, eftir ísát og spjall, gaf góðfúslegt samþykki fyrir áframhaldandi sambandi mínu við myndarlega Danann (það var líka hún sem byrjaði á þessari Danadýrkun sem virðist vera að smitast í hálfa íslensku kvenþjóðina ;)

samantekt yfir þessa 9 daga:
við fórum 3svar í sund
1 sinni í stutta fjallgöngu
3svar til mömmu hans
2svar til mömmu minnar
borðuðum 6 sinnum lambakjöt
og 7 sinnum ís
elduðum saman 5 sinnum
hittum fullt af fólki
horfðum á 2 myndir
og kúrðum mest

og núna þarf blessaði raunveruleikastillirinn minn að byrja á því á morgun að venja mig við að koma heim í tóma íbúð glorhungraða, með engan sem hlakkar til að elda með mér

og einu kærustuskyldurnar sem ég þarf að sinna er að passa mig að muna hvernig allir líta út, ef ég skyldi nú rekast á einhvern í Bónus :þ

bloggfrí

jamm

stóð nú svosem ekki til að fara í svona bloggfrí án þess að láta vita
þegar ég blogga ekki í lengri tíma er það annað hvort vegna þess að ég hef svo svakalega mikið að gera, eða að allt gangi á afturfótunum og ég bara meiki ekki að vera eitthvað að kvarta :þ

í þetta skiptið var það kærastinn sem kom í heimsókn til mín í heila 10 daga
og dagana þar rétt á undan var ég á fullu að gera allt sem varð að klára áður en hann kom ;)
meira um heimsóknina seinna

ég er allavega á lífi og líður að mestu leiti voða vel, nema hvað raunveruleikaskiptirinn minn er undir alveg gríðarlegu álagi
eftir að hafa allt í einu þurft að aðlaga sig að því að eiga mann sem beið heima á hverjum degi eftir vinnu og skóla, þá þarf núna að aðlagast því að hann sé farinn :s

jæja, best að fóðra aðeins líkama og sál

meira seinna

:D

07 október 2005

Strengir

mig langar svo á fantasíumyndina Strengi á laugardagskvöldið klukkan 20

Strengir er óvenjuleg, dramatísk og spennandi fantasíumynd fyrir börn og fullorðna. Við fyrstu sýn virðist Strengir vera hefðbundin ævintýramynd, en er frábrugðin að því leyti að allar sögupersón-urnar eru strengjabrúður. Allir strengir eru sýnilegir og gegna mikilvægu hlutverki í sögunni, t.d. er strengjabrúða drepin með því að klippa á “höfuð” strenginn. Þetta er fyrsta myndin í fullri lengd sem er gerð um strengjabrúður, og var fjögur ár í vinnslu. Myndin er um konungssoninn Hal Tara sem leggur upp í ferðalag til að hefna dauða föður síns. Á leið sinni lærir hann margt um fólkið sitt og finnur ástina þar sem hann á síst von á henni. Sagan segir frá ótrúlegu ævintýri Hal Tara, hugrekkinu, hættunum sem bíða hans, ástinni, hatrinu, og örlögum hans. Strengir hefur verið tilnefnd til fjölda verðlauna og hlaut meðal annars verðlaun sem besta evrópska fantasíumyndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni á Spáni, 2004


sumsé greinilega mynd sem ég verð að sjá

29 september 2005

tvíklukkuð

jæja, það er víst einhver voða bloggklukkleikur í gangi, og búið að klukka mig tvisvar, svo ég kemst líklega ekki hjá því að skrifa um mig 5 gjörsamlega gagnslausar staðreyndir:


  • ég tala við sjálfa mig

  • mér finnst best að taka klukkutíma í morgunverð

  • ég halla oft undir flatt

  • ég er með pinna í naflanum

  • ég get hreyft litlu tærnar frá hinum tánum



ég ætla hins vegar ekki að klukka neinn, þar sem flestallir vinir mínir (nema auðvitað þeir sem eru búnir að klukka mig) eru víst með heiftarlegt ofnæmi fyrir svona keðjum

:D

28 september 2005

Dagga?

þekkir einhver hana Döggu?

kannski svona einn eða tveir?

hmmm

Andrés var sko að spurja mig hvað vinir hans gætu mögulega fengið að kalla mig
amk. þeir sem geta ekki lært að segja fallega nafnið mitt

yfirleitt læt ég kalla mig eitthvað annað í útlöndum
soldið viðkvæm fyrir misþyrmingum á nafninu mínu
en þeir sem eru konu nánastir, þeir þurfa auðvitað að læra að segja nafnið konu
stundum hef ég líka notað þetta til að flýja sjálfa mig, en það er algjör óþarfi lengur
núna vil ég bara vera ég og ég heiti Dagbjört

önnur nöfn eru svona abstraction layer á mig, einhvernveginn, fyrir þá sem skilja nördamál, þau sýna bara einhverja hluta, en ekki það sem er undir niðri

Day
1996
hún var óttalausa ævintýrakonan sem ferðaðist á framandi staði og var opin fyrir öllu og öllum. líka soldið hörð í horn að taka. óþæg

Daybright
2001
bjó í Montreal. söng stíft. vann mikið. grét aldrei. dofin að innan

en sko Dagga
það var ég þegar ég var svona 13 - 15 ára
renglulegur ófríður stutthærður tölvuleikjanörd með leiklistaráráttu

kannski það sé bara kominn tími til að endurnýta hana?
setja hana í gegnum tímavél, flytja hana til Köben, slengja á hana slatta af holdi og hári, setja tónlist í stað leiklistar og tónvinnslu í stað tölvuleikja
gefa henni veglega innspýtingu af sjálfstrausti og aðeins betra innsæi
kannski eitt stykki kærasta líka ;)

jamm kannski kona geti bara notað gömlu góðu Dögguna
hún er orðin nógu fjarlæg í tíma til að konu finnist hún barasta pínu krútt

Dagga mín
hljómar bara soldið næs

og svo á hún það sameiginlegt með nafninu mínu sem mér þykir vænst um af öllu:
Amma var líka kölluð Dagga

26 september 2005

Hlátursköst

Hvenær fenguð þið síðast hláturskast?

ég man það ekki sjálf, það hlýtur að vera langt síðan, en engu að síður var ég meira og minna í hláturskasti alla helgina :D

já, ég var í Köben, frá föstudegi til sunnudags

er Andrés svona svakalega fyndin?
eða er ég svona léttrugluð?
skiptir ekki máli, því ég hló þangað til mig verkjaði í magann

mæli meððí ;)

(já og svo mæli ég líka með húfum. ég setti eina á mig í aumingjaégaðveraáíslandi kasti í morgun, og afleiðingin var sú að ég fann nákvæmlega ekkert fyrir kuldanum þó við færum (ozararnir) í göngutúr í hádeginu. lykillinn að því að lifa af á klakanum er sumsé ekki flóknari en þetta :þ )

Allt nýtt ! (stórfréttir)

jæja, þá er barasta allur pakkinn orðinn glænýr hjá mér:


  • ný íbúð

  • nýr kærasti

  • nýr skóli

  • ný vinna



já þá er síðasta púslið í nýja lífinu komið á sinn stað, og víst best að vera ekkert með þetta lengur undir rós ;)

þið vitið nú flest að ég flutti í nýja og glæsilega íbúð í sumar...
og flestir sem kunna að lesa á milli línanna vita að ég er búin að vera töluvert í Köben undanfarið hjá honum Andrési mínum :)

færri vita líklega að ég er byrjuð í Tónvinnsluskólanum á fullu, eða að ég sagði upp vinnunni minni fyrir um mánuði og byrjaði í dag að vinna aftur hjá Oz

en núna vitið þið það :)

nýtt líf!

og það er ekki hægt að segja annað en að ég sé lukkuleg :)

21 september 2005

Heimavinna

jæja, þá er skólinn LOKSINS byrjaður!
til að byrja með lærum við á tækin og græjurnar og forritin og svo að greina og pæla í lögum.
í gær var nokkurs konar formfræðitími þar sem við hlustuðum á tónkróka í dægurlögum og greindum þau niður í kafla

heimavinnan er svo að velja 5 lög og kaflagreina þau, og segja hvað hver kafli er margir taktar :)
hlýtur að vera einhver skemmtilegasta heimavinna sem mér hefur verið sett :D
núna er ég t.d. að undirbúa mig með að hlusta á tónlist á meðan ég vinn til að velja lögin.

held ég taki Jenny Wren (af Chaos&Creation in the Back Yard), og svo eitt með Bubba af í sex skrefa fjarlægð.
þá vantar auðvitað eitthvað rokkaðra...
er að spá í að reyna að finna eitthvað sem hentar með Porcupine Tree

var ég annars búin að segja ykkur að Porcupine Tree hefur einhverja furðulega Mozartíska eiginlíka.
held þeir séu göldróttir barasta...

...samt ekki eins göldróttir og Andrés ;)

og svo var spilaður Bob Dylan í tímanum í gær - the times they are changing
og ég á gamals aldri að uppgötva Bob Dylan
hversu fyndið er það?