30 mars 2007

lofuð

"hvaða vikudagur er áttundi áttundi núllátta?" spurði Andrés fyrir nokkrum vikum

*hint hint*

...

við Andrés eigum voða erfitt með að slíta okkur hvort frá öðru á morgnanna. Okkur tekst stundum að vakna uppúr 6, en förum sjaldnast á fætur fyrir klukkan 7.
Í morgun var svo útvarpsvekjarinn með hljóðið skrúfað niður, svo við sváfum fastast til klukkan 8 :)

það þýddi samt ekki að við stykkjum upp og drifum okkur af stað. Andrés er í próflestrarfríi, og ég bara er ekki þannig manneskja.
og þó ég færi framúr og klæddi mig var hann líka alltaf að toga mig aftur til sín. þannig er hann soldið.

svo bað hann mig að giftast sér :D
og ég sagði auðvitað já, enda ekki erfið spurning :)

svo nú erum við trúlofuð, fyrir þá sem ekki eru ennþá búnir að frétta það, og brúðkaup er áætlað í júlí eða ágúst 2008

samt ekki 8. ágúst, engar áhyggjur afmælisbörn, það er ekki einu sinni laugardagur, eins og útskýrði fyrir Andrési þegar hann spurði ;)

góða helgi allir

*knús og kossar*

:Dagbjört trúlofaða

25 mars 2007

hvað á ég að kjósa?

úff, mér finnst ég í alveg ferlega erfiðri aðstöðu.
Var um það bil búin að ákveða að kjósa eftir þeim 2 málefnum sem mér finnast skipta mestu máli hvað varðar mun á flokkunum tveimur, þ.e. umhverfismál og utanríkismál...

svo komst ég að því að ég er í Reykjavík Suður.
Efst á S listanum í reykjavík suður er... já þið vitið hver.
Fyrir 13 árum í dag vann ég sjálfboðavinnu eftir skóla fram á kvöld á hverjum degi í amk. 2 vikur og hjálpaði þannig til að gera hana að Borgarstjóranum í Reykjavík og að gera Reykjavík að því sem hún er í dag. En ég fékk ekki að kjósa hana sjálf. Þá vantaði mig nefnilega hálft annað ár í kosningaréttinn.
Svo 4 árum seinna voru m&p flutt í Kópavoginn, og ég með. 4 árum eftir það bjó ég í Kanada...

en núna má ég loksins loksins kjósa hana
og þá...

Solla var frábær í kvennalistanum. Og frábær borgarstjóri. En eftir að hún hætti sem slíkur hefur hún ekki staðið undir mínum væntingum. Það er líklega erfitt að hafa völdin í svona mörg ár og fara svo allt í einu yfir í stjórnarandstöðu. Góðir leiðtogar eru sjaldnast góðir í andstöðu... ég get alveg fattað það. Vandamálið er líka ekki hún, heldur flokkurinn sem hún leiðir og stefnan og stefnuleysið og tækifærismennskan sem sá flokkur stendur fyrir.

í 2. grein stefnuskrár þeirra (Heilbrigðismál) stendur m.a.:

Skilgreina þarf hlutverk heilbrigðisstofnana og heilbrigðissviða og hafa valfrjálst stýrikerfi.

valfrjálst stýrikerfi? hvað meiniði eiginlega? var það gamla pr-teymið frá OZ sem skrifaði þetta?

úr 3. grein (Menntamál):
Þeim sem útskrifast með framhaldsskólapróf og háskólapróf í hverjum árgangi verði fjölgað um fjórðung á næstu árum.

uh, hvernig er þetta stefna? hvernig þið ætlið að ná þessu fram væri stefna.

aftur úr 2. grein:
Auka vægi einkareksturs, útboða og þjónustusamninga í heilbrigðisþjónustu þar sem markmið jafnaðarstefnunarinnar eru tryggð.

Það eru bara ein rök með tískufyrirbærinu einkarekstri í þessum geira: frelsi lækna.
Heilbrigðiskerfið snýst hins vegar ekki um frelsi lækna, heldur velferð sjúklinganna. Þetta kerfi er miklu dýrara fyrir ríkiskassan (fleiri ónauðsynlegar aðgerðir) og verra fyrir sjúklingana (fleiri ónauðsynlegar aðgerðir). Hver vill kerfi sem býður uppá að (gróða)hagsmunir læknisins sjálfs hafi áhrif á ákvörðunartöku. Jú margir læknar "myndu aldrei" og svo framveigis, en þeir eru alls ekki allir heilagir og algóðir englar í mannsmynd. Þeir eru líka mannlegir og eiga bara aldrei að þurfa að vera í svona aðstöðu. Miklu hærri útgjöld eru niðurstöðurnar sem liggja fyrir í þeim löndum þar sem einkarekstur hefur verið reyndur (t.d. Ástralíu), og svo hef ég prófað heilbrigðiskerfið í 3 ólíkum löndum og m.a. orðið vitni að svona ákvarðanatöku sjálf.

og svo mikilvægast (fyrir mig við þessa ákvarðanatöku) úr 11. grein (utanríkismál):
Breiða samstöðu þarf að skapa meðal þjóðarinnar um samningsmarkmið sem látið verði reyna á í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Niðurstöðurnar verði lagðar undir þjóðaratkvæði.

Evrópusambandið sem var stofnað til að vernda hagsmuni Evrópu gagnvart öðrum heimshlutum. Sem niðurgreiðir landbúnað svo mikið að það er ódýrara fyrir sælgætisverksmiðju í S-Afríku að kaupa danskan sykur en þann sem er framleiddur á bóndabænum við hliðiná. Og kemur svo í veg fyrir að Afríkuríki geti sett upp sams konar styrkjakerfi, með viðskiptaþvingunum. Sem er alltaf að senda Afríku styrki en bara ef þeir eru notaðir til að kaupa vörur frá Evrópu. Já, sem níðist á nágrannanum sínum í suðri ekkert síður en kaninn. Og banna Dönum að banna hættuleg efni í mat, af því að franskir eða spænskir matvælaframleiðendur vilja halda áfram að nota þau. Og ákveða á gulrætur séu ávextir, af því að þær eru notaðar í sultur (ok ekki mikilvægt, en hjálp! hvað það er fáránlegt). Fyrir utan fiskinn fiskinn fiskinn, sem kemur í veg fyrir að það verði nokkurn tímann mögulegt að vera með í þessu félagi. Hamingjunni sé lof fyrir það.

Umhverfismálin eru líka alltof tækifæriskennd hjá þeim, svona álíka og Hillary Clinton og Íraksstríðið. Fyrst með og svo á móti eftirá. Ekki beinlínis trúverðugt.

Ef ég væri blaðamaður myndi ég líka spyrja Sollu: "Ef þú yrðir forsætis- eða utanríkisráðherra, og George Bush myndi svo hringja í þig og biðja um (eða heimta) stuðning við árás á Íran, hvernig myndirðu bregðast við?" Ég veit hvað Steingrímur myndi gera...

ég las stefnuskrá V um daginn og þó ég sé ekki sammála öllu og kannski vel frjálslyndari en þeir þá eru þeir samt með hluti eins og:
Skóli án aðgreiningar - Tryggja ber að allir nemendur eigi jafnan rétt og jafna möguleika á að stunda nám þar sem hæfileikar þeirra njóta sín best. Skólar þurfa að geta mætt þörfum hvers og eins...

Svo þeir styðja þá ekki "allir eiga að vera eins" skólakerfið sem reyndi að gera út af við okkur systkinin. Þ.e. ekki eins gamaldags stefna í þeim málum og ég hélt áður.

Já, málefnaskráin hjá V er sumsé að stærstu leyti betri en hjá S
en listinn hjá S í Reykjavík Suður er bara svo svakalega sterkur...

og það verður erfitt að mega loksins kjósa Sollu og gera það svo ekki

argh

já langur pistill, en þetta er líka erfitt mál

p.s. Af hverju er Jóhanna Sigurðardóttir ekki í 1. sæti í Reykjavík Norður? Hún er einhver pottþéttasti og duglegasti alþingismaður sem við eigum!

p.p.s. ds: Það er ekki svo mikið að allt verði að vera bara grænt, heldur fyrirhyggjusemin og spillingin og þessar framsóknar patentlausnir sem eru ekki lausnir heldur oft bara ný vandamál. Lestu Draumalandið, Andri er hægri grænn og hann færir fullt af bæði hægri og grænum rökum á móti þessu öllu saman. Fyrir utan hvað hann er frábær penni. Vinur minn í frjálshyggjufélaginu er líka á móti þessari yfirgengilegu fyrirhyggju. Bið annars að heilsa ;)

p.p.p.s. já og það er óþarfi að stinga uppá að ég kjósi eitthvað annað en annan hvorn þessara tveggja. Ég ber virðingu fyrir D, amk. þeim þar, sem trúa því að D stefnan sé landinu og okkur öllum fyrir bestu (þ.e. ekki bara þeim sjálfum), og margir eru með af mikilli hugsjón. En ég er þeim ósammála um grundvallaratriði.

20 mars 2007

Grátt eða grænt?

jæja, ef svo ólíklega vill til að þið hafið ekki heyrt um hann, þá er Sáttmálinn um framtíð Íslands kominn á netið til undirskriftar hér.

Meðal þess helsta er:

1. Við höfum kjark til að byggja upp fjölbreytt og lifandi samfélag á Íslandi þar sem hugvit og sköpunargleði einstaklinga fær að njóta sín þeim sjálfum og öðrum til heilla.

2. Við sýnum komandi kynslóðum virðingu með því að láta lögfesta áætlanir um náttúruvernd áður en nokkuð frekar er aðhafst í orkuvinnslu.
3. Við öxlum ábyrgð á tímum viðsjárverðra loftslagsbreytinga í heiminum með því að fylgja alþjóðlegum skuldbindingum um losun gróðurhúsalofttegunda.


Og það er líka bent á að núverandi áætlanir í stóriðjumálum:
1. Takmarka nýtingu á fjölbreyttari og verðmætari tækifærum
2. Krefjast gríðarlegra fórna á náttúruverðmætum
3. Skuldbinda orkulindir Íslands til einhæfra nota til langs tíma
4. Leiða af sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda


Það sem fer hvað mest í taugarnar á mér er ósvífnin í stjórnmálamönnum sem halda að þeir séu með bestu lausnina til að skaffa 200 manns vinnu. Hvað varð um hæfileika þessara 200 manna til að finna og velja sér vinnu sjálfir? Eða eins og Andri skrifaði, geta ekki 200 heilar fundið fleiri möguleika en einn?

:Dagbjört skógardís

01 mars 2007

Apar

Ef þið eruð ekki búin að lesa Bakþankana eftir Þráin Bertelsson frá því á mánudaginn, þá verð ég bara að benda á þá hér.

Gætið þess að lesa þá með vott af kaldhæðni, einhver sem skrifaði skoðun virðist hafa misskilið hann örlítið.

Ég vona annars að nýjustu rannsóknir á Simpönsum verði til þess að við förum að fara betur með þá greyin og hættum að loka þá inní einhverjum pínulitlum búrum. En nú finnst mér líka grimmt að halda hunda í borg...