26 október 2005

norrænir karlmenn, femínismi og fleira1. hluti: norrænir karlmenn og störf...
af gefnu tilefni langar mig að bæta örlitlu við gamalt blogg um íslenska karlmenn
mig langar að bæta því við að aðrir norrænir karlmenn eru að öllum líkindum alveg jafn yndislegir og þeir íslensku og á vissan hátt hafa þeir það betra skinnin, því í þeirra samfélagi er ekki ætlast til þess að þeir verði LLVV (læknar, lögfræðingar, verkfræðingar eða viðskiptafræðingar). þeir mega vinna á leikskólum og öldrunarheimilum og bara þar sem þeir vilja, og þeir gera það, hugsanlega líka vegna þess að þessi störf eru, að mér skilst, betur borguð og meira metin þar en hér (amk í DK).

einn í vinnunni minni var að benda á að börn gætu alist upp í dag án þess að eiga nein samskipti við fullorðna karlmenn. enginn pabbi á heimilinu. enginn karlkyns leikskólakennari. enginn karlkyns grunnskólakennari.
hljómar skelfilega í mínum huga!
haldiði ekki að íslenskir strákar myndu frekar vinna þessi störf ef þau væru betur borguð?

en hvað er til ráða?
í hvert skipti sem einhverjum dettur í hug að laga þetta og hækkar t.d. laun leikskólakennara, þá verður allt vitaust í næstu kjarasamningum því þá heimta allir samsvarandi launahækkun. þjóðfélagið er bara komið með það á fast að þetta sé láglaunastarf og aðrar stéttir taka ekki til greina að vera með lægri laun...

að þessu leyti get ég því verið sammála femínistanum sem heimtaði byltingu á mánudaginn. það þarf byltingu í því hvernig við mælum laun starfsstéttanna. nýjan mælikvarða. ekki bara fyrir konur, því karlmenn eiga jú líka að eiga þessi efnahagslegan kost á því að vinna við þau störf sem þeir vilja.

ekki að ég sé alveg kommi, en hér er ein skemmtileg pæling: ef öll störf væru jafn vel launuð, við hvað myndir þú vilja vinna?

2. hluti: er ég femínisti?
Andrés þykist hafa komist að því að ég sé í eldrauðum sokkum. líklega vegna þess að ég á það til að tala um sumt af þónokkri ákefð. kannski er ég að töluverðu leyti einhvers konar nýfemínisti, en ég er þó ekki til í að skrá mig í femínistafélagið. eins og ég hef margoft sagt þá er ég bara alls ekki sammála öllu sem þau gera þar. er ekki mikið fyrir öfgar og vanhugsaðar upphrópanir í fjölmiðlum. ég trúi því samt statt og stöðugt að þó það séu alltaf nokkrar sem skemmi fyrir hópnum, þá hati fæstir femínistar karlmenn.
ég er allavega alls ekki þannig femínisti, en hver getur líka hatað karlmenn sem þekkir annan hvern mann á þessum lista ;)

það sem ber samt líklega mest í milli, er hvað ég er ósammála þeim femínistum/jafnaðarmönnum sem virðast hafa misskilið orðið jafn og halda að það þýði eins. í mínum huga eru þetta tvö gerólík orð. mér finnst allt í lagi að viðurkenna að fólk sé ólíkt. að kynin hafi einhverja náttúrulega ólíka eiginleika. (t.d. er bara alls ekki hægt að neita því að karlmenn séu yfirleitt líkamlega sterkari). fólk er líka ólíkt. en engu að síður trúi ég því að það eigi að meta þessa ólíku eiginleika að jöfnu. einn er góður í stærðfræði, annar í mannlegum samskiptum. er annar mikilvægari eða merkilegri en hinn?
við þurfum ekki að vera eins til að vera jöfn. þess háttar misskilningur varð til þess að skapa misheppnaða meðaljóna skólakerfið sem ég ólst upp við og varð til þess að börn sem voru á eftir eða á undan voru einfaldlega utanveltu í skóla. þið munið líklega öll eftir þessu.
það má samt meta ólíka verðleika okkar að jöfnu. já takk :)

og ef ég er eitthvað, þá er ég jafnvægissinni
ég vil jafnvægi á milli þess kvenlæga og þess karllæga
þess náttúrulega og þess tæknilega
þess mannlega og þess hagfræðilega
þess listræna og þess vísindalega
en nú er notkun mín á "þess" komin verulega úr jafnvægi...


jæja, nóg af blaðri.
kannski ég geti sett saman texta fyrir eitt stykki lag í kvöld - fyrir skólann

góða nótt fólk

:Dísulísuskvísan

2 ummæli: