mig vantar knús...
29 apríl 2005
28 apríl 2005
úúúúúúúbbbbbbs!
æjæjæjæjæjæjæj!!!
ég er á síðustu metrunum!
eftir morgundaginn er venjulegur skóli búinn
bara prófið og tónleikarnir eftir (muna muna 17. maí!!!)
þarf bara að halda út sjálfsaga í 3 vikur í viðbót
vera sterk...
og hvað geri ég svo núna rétt áðan????
HVAÐ GERI ÉG????
þurfti aðeins að skreppa á amazon til að sinna nauðsynlegum verslunarmálum (sumt bara fæst ekki á Íslandi...)
en þurfti, í leiðinni, ENDILEGA að fara að skoða...
bækur
já sem væri svo sem allt í lagi,
nema hvað ég datt niður á bækur eftir Guy Gavriel Kay
sem eru historic fantasy bækur - byggðar á mikilli heimildavinnu
mjög ídettilegar
Kay þessi, hann skrifaði trílógíu (Fionavar Tapestry) sem ég las fyrir mörgum mörgum árum (10+)
uh, las er kannski ekki alveg rétta orðið
DRAKK Í MIG
er nær sannleikanum
þær voru (ásamt Elísu og mjög svo fallegum fjólubláum skóm) kveikjan að trílógíunni minni (Magic of Purple) !!!
so now you know!
nema hvað,
mín fór að lesa umsagnirnar á amazon, og þessar nýju bækur hans ku vera töluvert betri en þær sem ég svolgraði í mig 17 ára
svo mig, bóksveltri stúlkukind, fór að langa
allískyggilega
að detta inní annan heim
bara smá...
(það er svo langt að bíða til 16. júlí - verð að fá upphitun!)
svo leit ég upp
í hilluna yfir skrifborðinu mínu
og sá þessar tvær bækur
þar
ég á þær
þær eru hérna
keypti þær fyrir nokkrum árum á bókafylleríi í Montreal, en komst aldrei yfir að lesa helminginn af því sem ég keypti
gleymdust hálfpartinn
og bíða betri tíma
sem er ekki í dag
ekki á morgun
...anda inn
anda út
segja við sjálfa sig:
"þú æltar EKKI að byrja að lesa TVO ævintýra-doðranta rétt fyrir próf!!!
þú mátt BARA lesa teiknimyndasögur og alvarlegar bókmenntir fram yfir 17. maí
ferð snemma að sofa
vaknar snemma
ferð í sund og pilates
borðar ekki nammi (ís leyfilegur á sunnudag)
drekkur ekki áfenga drykki (þó þú sért í partýum næstu tvö kvöld)
engin ævintýri!
í hamingjunnar bænum! raunveruleikinn þinn er súper-spennandi, þú þarft ekki að fara á eitthvað tilvistarflakk!
sökktu þér frekar í Dagurinn líður og hættu þessari vitleysu!
og hananú!"
muh!
allur móralskur stuðningur vel þeginn....
góða nótt
p.s. er að syngja með kórnum á synfó tónleikum annað kvöld. Berlioz - Fordæming Fausts. Mæli meððí!
26 apríl 2005
draumafyrirtækið
í tilefni af umræðu um framkomu við starfsfólk, lagði ég fram eftirfarandi kenningu:
--kenning hefst--
Ef ég væri að stofna hugbúnaðarfyrirtæki þá myndi ég:
- Eingöngu ráða konur
- ráða þær eingöngu í 80% starf
- borga þeim 100% laun
- fá 120% afköst
--kenningu líkur--
Rökin eru þessi:
Konur eru mjög duglegar, sérstaklega þegar þeim finnst vera gert OF vel við sig. Ef maður borgar þeim meira en þeim finnst þær eiga skilið (100% laun fyrir 80% starf), þá leggja þær sig allar fram um að standa undir því. Þær kunna virkilega vel að meta 80% starf, því þær hafa svo margt annað að gera sem karlar einhvern veginn sleppa oftar við. Auk þess sem það er algjör vitleysa að láta fólk vinna yfirvinnu, því heilinn hættir að gera neitt af viti eftir langan vinnudag. Hann er jú bara vöðvi, og þarf hvíld.
80% vinna - súpergóður mórall - 120% framlag
(plús: þær konur sem eru góðir tölvunarfræðingar eru mjög góðar ;)
24 apríl 2005
heimsfræði
Fór í gær á alveg hreint frábæran fyrirlestur í Háskólabíói:
"Rúm, tími og þyngd í afstæðiskenningu Einsteins"
sem er hluti af fyrirlestraröð fyrir almenning í tilefni af ári eðlisfræðinnar, sem kallast "Undur Veraldar" (sjá edlisfraedi.is)
framsetningin var einmitt nægilega einföld til að almenningur gæti skilið þessa hluti, sem eru vægast sagt ákaflega spennandi.
meðal þess sem við lærðum var að
- tíminn líður hraðar fjarri þyngdarsviði
- og þar með hægar nálægt þyngdarsviði
- og stendur í stað við sjóndeild svarthols
- og út af þessu, svokallaða bláviki, þarf að leiðrétta GPRS staðsetningarkerfið um 11 km á sólahring...
- ljósið beygist nálæt þyngdarsviði
- og þess vegna getum við séð sömu stjörnuna á 3 stöðum á himninum
- en bara ef hún er á bak við stóran vetrarbrautaklasa
- ...eða kannski er það bara rúmið sem beygist
- OG: hulduefni er að verða viðurkennd stærð í eðlisfræði
- og það er orka í tóminu...
vátsj!!
þegar ég var í stjörnufræði í menntó, fyrir tæpum 10 árum eða svo, þá var það bara mikli hvellur, heimurinn varð til, heimurinn þenst út, hægar og hægar, heimurinn skreppur saman, heimurinn fellur saman og ekkert, nema kannski endurtekur þetta sig allt saman.
það var heimsmyndin
frekar óspennandi
svo 1998
þá komust þeir að því að heimurinn þenst út hraðar og hraðar
hann ætlar sko bara alls ekki að skreppa saman aftur
og allt í einu er óhemjumikið af spurningum ósvarað
fyrirlesarinn viðurkenndi að 70% af "alheiminum" (vont orð á þessum tímum), þ.e. okkar plani af heiminum, okkar skynjanlega heimi...
70% væri eðlisfræðilega óþekkt
þ.e. ekki þekkt efni
5% er það sem við sjáum
25% (minnir mig) er hulduefni
og 70% hafa menn bara ekki hugmynd um hvað er...
ef það er ekki spennandi... þá veit ég ekki hvað spennandi er
enda þyrpist nú fólk í stjarneðlisfræði
og vá hvað ég skil það vel!
:D
22 apríl 2005
Dagurinn sem heltekur
ætli þetta muni gerast í hvert einasta skipti sem ég sem nýtt lag?
ég meina,
það er svo lítið mál að finna laglínuna
hún bara kemur
eins og ekkert sé
svo framarlega sem ljóðið grípi mig þá myndast stemningin bara og lagið verður til
og þökk sé tónheyrnarþjálfuninni kemst það fljótt og nokkuð örugglega á blað...
en undirleikurinn: þvílíkur höfuðvekur!!!
og ég fyllist efasemdum
um að ég geti nokkuð
hafi nokkuð að gera í tónskáldið...
það er ekki vegna þess að undirleikurinn neiti að verða til
- hann fæðist yfirleitt fljótlega á eftir laglínunni, ef ekki um leið -
þ.e. ekki nóturnar
heldur tilfinninginn
tilfinningin sem ég veit að hann á að skapa
bragðið að honum
vandamálið er að hann býr í hjartanu á mér
og að koma honum úr hjartanu yfir í heilann: það þarf að gerast í gegnum hendurnar!
og þær greyin eru bara alls ekki nógu klárar á píanó :S
og ég get ekkert stjórnað því hvernig hann verður
eða reynt að glamra eitthvað annað sem er auðveldara
því það er alls ekki ég sem sem hann
hann bara verður til
einhvers staðar í undirmeðvitundinni
tekur af mér völdin
svo ég sit og sit og glamra og prufa
en ekkert hljómar eins og hjartað mitt veit að það á að hljóma
og ég engist
í vikur...
*andvarp*
en svo loksins
einhvern daginn
kannski þegar ég kemst í almennilegt píanó...
þá finn ég hann
og hann heltekur mig
í þetta skiptið er það "Dagurinn líður"
5 erindi eftir Tómas!
það flóknasta sem ég hef samið hingað til...
og ég fann hann í gær!
sumargjöfin mín!
***********ljóm*************
Buckley, Bellamy, Che og allir þessir listar
sambó gerði þvílíkt grín að mér þegar ég sagði honum frá Jeff Buckley draumnum um daginn
"þú ert eins og systir mín sem dreymdi um Jason Donovan í gamla daga!"
YEAH RIGHT! :þ
--sjálfsvörn byrjar--
sko
stelpur sem eru skotnar í poppstjörnum eru skotnar í þeim af því að þeir eru stjörnur
og frægir
og sætir
og sexý
og glenna sig í myndböndum
Jeff Buckley í draumnum leit ekki einu sinni remotely út eins og Jeff Buckley, enda var ég ekkert með skýra mynd af honum í hausnum (kíkti hins vegar á hulstrið af Grace þegar ég vaknaði)
vegna þess að þetta Jeff Buckley æði mitt
(og Matt Bellamy (í Muse) æðið mitt haustið 2003)
snýst nákvæmlega ekkert um persónu hans
né smetti
né magavöðva, upphandleggsvöðva né neitt því um líkt
það snýst algjörlega og eingöngu um tónlistina
tónsmíðarnar, sönginn, hljóðfæraleikinn, textana, röddina
tónlstarsköpunina
tónlistinn bara snertir mig á einhvern sérstakan hátt
svo ég finn til
og hananú
--sjálfsvörn endar--
jájá
hef stundum spáð í að gera svona lista - nei ekki draumaprinsalista...
lista yfir fólk sem hefur áhrif á mig
t.d. einn úr tónlistinni:
- Tchaikovsky (fiðlukonsertinn!)
- Dvorak (t.d. mesicku)
- Mussorgsky (sönnun þess að fólk með "rangan" bakrunn getur samt gert svo margt)
- (ha Austur-Evrópa hvað???)
- Jón Leifs (það er svo ljúfsárt Ísland í verkunum hans)
- Kalli Run (þvílík ástríða)
- Jón Ásgeirs (þvílík fegurð)
- Jórunn Viðars (glettinn nútíminn)
- uh uh uh...
- Jeff, Matt og þeir þarna...
eða yfir fólk sem ég tek mér til mannlegrar fyrirmyndar eins og amma og m&p og Vigga og kannski núna Che (ég meina sko fyrir utan aðferðirnar sem hann notaði - en egalitisti dauðans! - ouch)
er ég ekki svo mikil "lista"kona alltaf??
nema bara... til hvers?
er það ekki bara tilraun til að skilgreina og skipuleggja eitthvað sem á bara best heima í undirmeðvitundinni?
kannski ég ætti bara að hætta með þetta lista-æði mitt
amk. takmarka það við vinnutengd efni (allir midp2 símar osfrv)
stundum þegar maður skilur eitthvað of vel, þá hættir manni allt í einu að finnast það spennandi...
svo ég held þau megi bara hafa áhrif á mig án þess að ég viti nákvæmlega hvernig
því, um leið og það er orðið meðvitað, er það þá ekki líka bara orðið þvingað???
úff, á það þá ekki líka við um sönginn???
bleah!
21 apríl 2005
...GLEÐILEGT SUMAR!!!
sumarið er tíminn
þegar hjartað verður grænt
og augu þín verða
himinblá
ójá
og mér finnst það í góðu lagi
:D
20 apríl 2005
19 apríl 2005
sofnaði við Lilac wine...
við vorum 3
hann hafði skilið eftir leiðbeiningar
alls staðar
um völundarkirkjuna
stiga
ganga
skreyttum íburðarmiklum veggteppum
(minnir mig)
við leituðum lengi
að rétta stiganum
rétta herberginu
rangalar
stigar
leidd áfram af tælandi en ósnertanlegri hugmynd um að okkar biði eitthvað...
ótrúlega spennandi
loks þegar við fundum rétta stigann
stigann uppí hæsta turninn
vissum við að við værum að nálgast takmarkið
við drifum okkur upp
opnuðum dyrnar
litum inn
hann sat þarna í sófa
og var að spjalla við Svabba
Jeff Buckley
hann bauð okkur velkomin
þekkti mig alveg
ég rak augun í blað fyrir framan hann
þar hafði hann krotað
"Dagbjört dís"
fann strax að hann var frá sömu plánetunni og við Svabbi
hinir sem voru með mér virtust ekki eins spenntir...
síminn minn hringdi svo ég þurfti aðeins að bregða mér afsíðis
á meðan ég talaði pípti síminn til merkis um að ég hefði fengið skilaboð
ég lauk samtalinu eins fljótt og ég gat og opnaði innhólfið
MMS
sound fæll
play
það sem ég heyrði, ég get ekki sungið það
man ekki einu sinni hvaða lag það var
en ég man að það var eitt af mínum uppáhalds lögum
jafnvel Dísan
og ég man hvernig það hljómaði
tveir gítarar
annar með hljómana
hinn plokkaður
þýða röddin hans Svabba
ein til að byrja með
svo
Jeff Buckley - undurtær og bjartur
yfir
mmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmmm
Svabbi og Jeff Buckley spiluðu og sungu uppáhaldslagið mitt og sendu mér það með MMS
mínir tveir uppáhalds tenórar! (utan klassíkur)
saman
vá!
ég dansaði fram og kyssti þá hvorn á sína kinnina
svo settist ég við hliðina á Svabba því ég var ennþá pínu feimin við Jeff...
og vaknaði
15 apríl 2005
Umferð
var að lesa góða grein um umferðina hér á vísisvefnum
mín skoðun er sú að það eigi að vera fáar, vel skilgreindar umferðaæðar, þar sem eru engin ljós, bara slaufur
best ef þær gætu verið niðurgrafnar
maður þarf aldrei að stöðva bílinn frá því að maður kemur á svona æð, þar til maður kemur af henni
rennur bara mjúklega í gegn
inni í íbúðahverfunun hins vegar, vil ég að komið sé alveg í veg fyrir gegnumakstur
þar væru næstum allar götur með hámarkshraða 30 og allt morandi í hindrunum og einstefnum
ég vil að Lönguhlíðin verði gerð einbreið og lokað verði fyrir innakstur af Kringlumýrarbraut inn á Hamrahlíð (þvílíkir níðingar sem "stytta sér leið" þar í gegn, fram hjá tveimur skólum!)
best væri ef það væri bara ein leið inn og út úr Hlíðunum (og öðrum íbúðahverfum) til að koma alveg í veg fyrir gegnumakstur
þannig yrði mikil en greið umferð á vel skilgreindum æðum, eins og Miklubraut, Sæbraut, Kringlumýrarbraut og hvað þær nú heita
en engin umferð þar sem börnin okkar labba í skólann, og æfa sig á hjólunum sínum :)
og greinin sem ég minntist á að ofan, hún útskýrir líka hvernig þetta er allt saman umhverfistvænna og getur jafnvel dregið úr slysum :)
12 apríl 2005
aumingjans fegurðardrottningarnar
mikið væri kúl ef menntaðar og sjálfsöruggar konur héldu stuðningsfund fyrir utan næstu Ungfrú Ísland keppni
Brúðarbandið gæti spilað "sætar stelpur" og fleiri af sínum frábæru lögum
já, nei, einmitt ekki mótmælafund
heldur stuðningsfund
til að lýsa yfir stuðningi við þáttakendur keppninnar
tilkynna þeim, greyjunum, að þær séu svo miklu miklu miklu meira virði en þetta
þær eiga nefnilega greinilega voða bágt greyin því það gleymdist að segja við þær í æsku:
- "mikið ertu klár!"
- "mikið ertu dugleg!"
- "mikið ertu skemmtileg!"
- "mikið ertu góð!"
- "mikið ertu sterk!"
- "mikið ertu flink að..." eitthvað sem þær er örugglega flinkar í
- og svo framvegis (fleiri góð "mikið ertu" eru vel þegin ;)
giska á að það eina sem þær hafi fengið að heyra sé:
- "mikið ertu fín!"
- "mikið ertu sæt!"
- "svakalega ertu í sætum kjól!"
- og annað álíka
hvers eiga þær að gjalda!
að hafa verið talið trú um það frá blautu barnsbeini að það eina sem þær gætu væri að vera sætar og að það skipti öllu máli. helst ættu þær að vera fallegastar á öllu landinu...
"og hvað með það?
mega þær ekki bara byggja sína sjálfsmynd á fegurð einni saman ef það er það sem þær vilja?" (lesist endilega með röddum sumra vinnufélaga minna...)
tja...
í fyrsta lagi þá völdu þær tæplega hvernig sjálfsmynd þeirra byggðist upp, það er uppeldislegt og félagslegt "afrek"
í örðu lagi þá er SVONA fegurð einmitt sú fegurð sem dofnar, og hvað verður þá um sjálfsímynd þeirra?
jamms, hún hrynur, eins og fyrrverandi nágrannakona mín í Montreal er gott dæmi um.
hún var fyrrum fegurðardís, ábyggilega enn undir fertugu, hefði enn talist falleg í hinum venjulega heimi, en í tískuheiminum var hún orðin gömul
hún var að missa vitið
grét og grét svo ég hafði ekki svefnfrið, á milli þess sem hún tók ofsafengin æðisköst í hvert skipti sem ég æfði mig að syngja
vesalings konan
ég er ekki að segja að þetta bíði allra fegurðardísa
flestar ættu þær að geta haldið sér "sætum" nógu lengi til að eignast mann og börn
börnin sjá svo vonandi um að halda í þeim vitinu í framhaldinu... eða hvað?
hey, en hvað meina ég eiginlega með SVONA fegurð?
jú þetta er einhver skringileg fegurð sem ég barasta skil ekki, sem þeir virðast vera að reyna að mæla í þessum keppnum
ég er alls ekki að segja að þessar stúlkur séu ófríðar
nei, enda þekki ég enga ófríða konu yfirleitt
þær eru líklega ágætlega sætar undir þessu öllusaman...
en það er bara alls ekki hægt að sjá framan í þær fyrir sólbrúnku, meiki, svartlituðum augabrúnum og þvílíkum augnskugga
(ég mála mig nú stundum, en þetta minnir nú meira á þegar við vorum að fikta við að setja stardust alla leið upp að augabrúnum til að sjokkera nú örugglega foreldrana, þarna á unglingsárunum í den)
já, ekki nóg með að þeim sé talin trú um að eina gildi þeirra liggi í fegurð, þeim er líka gefið að skilja að þær séu alls ekki nógu góðar eins og þær eru, heldur þurfi að dulbúa sig allverulega til að geta talist fallegar. ég veit ekkert um hvort þær eru farnar að fara í lýtaaðgerðir hér, en mér skilst að það sé orðið must annars staðar í heiminum. vesalings vesalings konurnar!
svo líta þær út eins og afskræmt plast í þokkabót...
ég held að um það bil allar konur sem ég þekki séu margfalt fallegri en yfirborðsplastið sem ég hef séð á síðum blaðanna undanfarinna daga (ungfrú þessi og hinn landshluti)
því sem betur fer eru flestar konur sem ég þekki frekar glaðar í eigin skinni (amk svona dags daglega)
þær vita að þær eru æðislegar fyrir eitthvað sem býr innra með þeim og geta þar af leiðandi margar hverjar geislað svo eftir því er tekið
þær eru heppnar
þeim var hrósað fyrir það sem skiptir máli
en vesalings fegurðardrottningarnar!
er ekki hægt að hjálpa þeim eitthvað?
10 apríl 2005
mæli með
tveimur myndum sem ég sá í síðustu viku
sú fyrri er íslenska gamanmyndin "Dís", sem ég, nafnsins vegna, hafði verið treg til að sjá. það var auðvitað ekkert nema barnalegur kjánaskapur, en þær skólasystur mínar sem eiga heiðurinn að henni, hafa fengið nafnið á nákvæmlega sama stað og ég, nefnilega úr Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur.
en um myndina:
fyndin, skemmtileg og vel leikin. pínu svona norðurkjallarabragð að henni sem birtist í töluverðum fordómum gagnvart úthverfa"rottum" (matgarðspakki) á kafi í lífsgæðakapphlaupinu. En það er allt til gamans gert, og boðskapurinn góður.
best:
hvernig þær taka útlenska karlmenn og hakka þá í spað!!!
þá seinni fékk ég að sjá í stóra salnum í háskólabíó á föstudagskvöldið
sú heitir "Motorcycle diaries" og er hreint frábær vegamynd
etv. er það vegna þess að hún er byggð á raunverulegum dagbókum
það er kannski eins gott að draumaprinsalistinn er dottinn uppfyrir, því annars væri hinn hjartastóri Ernesto "Che" Guevara - kallaður Fuso í myndinni - líklega á leiðinni inná hann.
Allavega ef ég væri 17 ;)
þessi mynd lýsir því hvernig hann breytist úr saklausum og hjartahreinum læknanema í reiðan ungan mann með hugsjón. sýnir hvernig augu hans opnast fyrir þjáningu almúgans. og hvernig hann átti auðvelt með að hrífa fólk með sér. sumsé alls ekki um byltinguna. Fyndin, skemmtileg, áhrifamikil, hjartahlý og með hreint frábæra myndatöku. best að sjá þessa á stóru tjaldi ;)
annras sorglegt hvernig fólk með fallega hugsjón heldur að besta leiðin til að gera hana að veruleika sé að drepa þá sem eru ósammála...
ekki að ég viti neitt mikið um Suður-Ameríku (merkilegt hvernig stórum hluta heimsins var sleppt úr sögunni sem maður var látinn læra í skóla), en er ekki annars ástandið þarna ennþá svona slæmt?
eru ekki ennþá hinir ríku að kúga þá fátæku?
og er það Bandaríkjunum að "þakka" að byltingin tókst ekki?
nei ég bara spyr, því samkvæmt eftirmála myndarinnar
þá voru það þeir sem drápu Fuso...
08 apríl 2005
einkennilegar hliðarverkanir endurfæðingar
það er ýmislegt sem kemur á óvart við þessa nýju konu (sem fæddist á sunnudaginn)
hún er eitthvað voðalega mikið að reyna að vera minna sjálfhverf
(t.d. ef einhver er leiðinlegur viðmóts, í staðinn fyrir að móðgast, að velta fyrir sér hvort viðkomandi eigi pínu erfitt í dag og vera þess vegna frekar næs!) það er reyndar margra ára, ákaflega bjartsýnt verkefni sem krefst mikillar ævingar
innblásturinn er auðvitað amman sem komst í gegnum 89 ára líf án þess að hallmæla nokkrum manni
vá!
svo er þessi nýja frekar mikið á móti sjónvarpi í augnablikinu, en við sjáum nú hvernig það endist þegar skammdegið mætir aftur á skerið...
þetta er auðvitað barasta fínt!
það er hins vegar annað sem er furðulegra:
hún á sér engan draumaprinsalista!
jamms
draumaprinsalistinn er búinn
hættur
farinn
strokaður út
ekki viljandi
ekki meðvitað
en samt einhvern veginn
orðinn... úreltur!
hef ekki hugmynd um hvað þetta táknar
hún er alls ekkert hætt að láta sig dreyma
ennþá sömu kreisí hugmyndirnar um að hún geti actually orðið lagasmiður/tónskáld
og þessi brjálaða ævintýraþrá er líka að gera út af við hana...
07 apríl 2005
móðir allra
það var alveg sama hver það var, hún gat látið öllum líða eins og þeir ættu sérstakan stað í hjarta hennar.
og það áttu í rauninni allir, því hún var með stærsta hjarta fyrr og síðar.
henni þótti óendanlega vænt um alla.
var móðir allra.
svo dó hún, í hárri elli, en væntumþykjan hvarf ekki
væntumþykjan var ennþá allt í kring, því fólkið vissi að hún var ennþá á meðal þeirra
alls staðar.
og þau töluðu um hana, sögðu börnum sínum frá henni
hvernig um umlykti þau öll með kærleika sínum
móðir allra
og börnin sögðu sínum börnum og brátt var hún orðin móðir heillar þjóðar
eilíf
alls staðar
móðir vor þú sem ert á himnum...
um aldir
já eða sko
varð ekki guð til svona?
fyrir 7000 árum
hvernig ætli heimurinn væri ef hann hefði verið kona???
05 apríl 2005
17. maí - 17. maí - 17 maí
jæja!!!
þá er dagsetningin mín loksins komin :)
þriðjudagskvöldið 17. maí verða 8. stigs tónleikarnir mínir haldnir
allir þeir sem vilja koma geta tekið frá kvöldið
aðgangur er ókeypis og á efnisskránni eru verk úr ýmsum áttum
eins og t.d.
- þýsk sönglög (Brahms, Wolf, Schubert)
- norræn sönglög (Grieg)
- hugsanlega frönsk sönglög (Debussy)
- óperuaríur
- söngleikjalög
- íslensk sönglög (þam líklega 2 eftir mig :)
hlakka til að sjá ykkur (ég á eftir að minna á þetta nokkrum sinnum aftur)
Fönix
Komiði sæl!
Ég heiti Dagbjört :D
Ég fæddist sunnudaginn 3. apríl 2005, þ.e. í fyrradag
ég reis upp úr ösku forvera míns :)
hún er búin
ég er byrjuð
við erum ekki eins
ég er öðruvísi að ýmsu leiti
ný
það er gott að vera ný
það var vorið sem vakti mig
mikið er vorið yndislegt!
veturinn er enn eitthvað að reyna að stympast við það
en ég veit hver hefur sigur að lokum ;)
já, ég er sumsé endurfædd og heimurinn er yndislegur
svo og allt í honum
*knús* veröld
02 apríl 2005
töfratónar og tunglsgeislinn
Howard Shore sendi mig á nett löngunartripp þegar ég fylgdist með honum í Appendix VI við LOTR ROTK (Lord of the Rings - Return of the King fyrir nördleysingja) í vikunni (í vælutón "mig langar að verða kvikmyndatónskáld!")
stefin við persónurnar og staðina sem smátt og smátt vinnst úr á stórbrotinn hátt, skyndilegu einsöngskaflarnir með undurfagurri René Flemming rödd (sem er nú komin með álfamál á ferilskrána!) og vart heyranlegum undirleik...
* R I S A A N D V A R P *
en þrátt fyrir undursamleik Howard Shore, þá er það hins vegar alltaf einn maður sem á heiðurinn að því að tendra áhugann á kvikmyndatónlist
og ekki bara minn
heldur flestra sem á hann hafa hlýtt
enginn annar hefur þetta vald yfir töfratónunum þannig að tónlistin virðist vera fædd af öðrum heimi.
undraheimi
ævintýraheimi
töfraheimi
stundum er myndin varla byrjuð þegar maður bara veit að tónlistin er eftir hann og engan annan
eins og þegar flugunni var fylgt eftir í upphafi MIB (Men in Black) og ég mátti hafa mig alla við að klípa ekki í Hönnu og pískra
"Danny Elfman! þetta bara hlýtur að vera hann!"
nema hvað!
hann er jú töfratónskáldið, og ég bara get ekki beðið eftir að heyra Kalla og sælgætisgerðina, því sjaldan fær Elfman betur notið sín en í samstarfi við meistara Burton.
*andvarp*
Í mörg ár hef ég klórað mér í eyrunum yfir þessum dáleiðandi töfratónum
laðast að þeim
drukkið þá í mig
og orðið þyrstari
en ekki skilið
Elfman er auðvitað ekki sá eini sem kann að nota þessa töfratóna
hann er hins vegar duglegastur við það, og líklega bestur
(Svabbi hefur t.d. lengi kunnað þetta sbr. td. Martöð II og Álfareiðina :)
það var svo á svipuðum tíma og ég var að reyna að finna tíma til að læra fyrir lokaprófið í hljómfræði (er núna "stúdent" í hljómfræði ;) ), sem ég ákvað að takast á við það sem mér þótti næstum óleysanlegt verkefni:
að semja lag um tunglsgeisla
óleysanlegt?
jú, vegna þess að mér þótti einfaldlega ekki koma til greina að túlka tunglsgeisla án þess að nota töfratónana
sem ég hafði enn ekki fundið...
en stundum er gagn í námsbókunum:
í hljómfræði 8 bætast við nokkrir skemmtilegir hljómar
margir hverjir notaðir til að skipta um tóntegundir
aðrir eru bara ósköp venjulegir hlómar sem hefur verið breytt
kallaðir "breyttir hljómar"
já einmitt
afskræmdir
óeðlilegir
skrítnir
yfirnáttúrulegir?
upprunalega voru þeir dúr hljómar, og því ekki nema von að ég fyndi þá ekki, því í mörg ár hef ég verið að leita að þeim í moll! þröngsýna litla ég
yfirleitt er það bara ein af þeirra eðlilegu nótum sem hefur etv verið tekin og færð til um svo lítið sem hálftón, eða heilli nótu bætt við
jafnvel útúr tóntegundinni
í klassísku hljómfræðinni má reyndar helst bara gera þetta á voða afmarkaðan hátt,
en hver í nútímanum lætur það nokkurn tíman stöðva sig?
svo ég grúfði mig yfir píanóið mitt og fiktaði og fiktaði
og loksins fæddist hann
E dúr með lítilli 6und
tunglsgeislinn minn :)
og ekki nóg með það
eftir að Iwona sendi mig heim með skottið á milli lappanna með fyrsta undirspilið mitt (svo einfalt að það er móðgun við undirleikarann!) þá lagðist ég uppbygginguna og í tvær vikur fékk ég að búa til fullt af öðrum töfratónum, eða öllu heldur töfrahljómum.
fljótlega fór litla 2undin að gera sig heimakomna í E dúrnum líka og varla er sá hljómur núna í laginu sem ekki hefur verið bætt eitthvað við :)
nema minnkaðir 7undarhljómar - þeir eru alveg nógu afskræmdir í sjálfum sér
og hinn undurtæri a dúr í lokin, sem ég leyfði mér reyndar að hafa í frekar óhefðbundinni stöðu fyrir lokahljóm (2. hljómhvörf)
loksins þegar ég fór með þetta aftur til Iwonu, og hún spilaði það, þá átti ég bágt með að tárast ekki
hún er svo frábær píanóleikari, hún skildi þetta allt saman
og tunglskinið rann úr höndunum á henni...
jiiiiiiiiiii hvað ég hlakka til að heyra Hönnu Þóru syngja þetta :)
og nú á ég töfratónana og er svo miklu ríkari :D
helgin
mest gaman að hafa nóg að gera, er það ekki?
helgin:
- fara snemma á fætur
- dútla í nýjasta laginu (við ljóðið "Dagurinn líður" eftir Tómas)
- skreppa í ræktina
- svo í blómaval og byko
- umpotta þessum tveim blómahræðum sem ég á
- syngja á meðan
- kítta baðkarið
- syngja á meðan
- læra 2 - 3 ný lög
- læra öll hin lögin utanað (þ.e. textann, því lögin festast alltaf strax)
- vinna kannski bara svona pínu pons
- syngja meira
- dútla meira í "Dagurinn líður"
- skreppa í ræktina aftur
- syngja meira
- borða sunnudagsmat hjá mömmu
- helst klára laglínuna að "Dagurinn líður" og gott uppkast að undirleik... :S (eins og er er ég komin með laglínu fyrir fyrsta erindi og ágætis uppkast að hinum 4 - já og örstutt píanó-intro)
- sofa vel og lengi :)
ég er SVO heppin að fá að gera BARA svona skemmtilega hluti alla helgina :D
góða nótt ;)