12 apríl 2005

aumingjans fegurðardrottningarnar

mikið væri kúl ef menntaðar og sjálfsöruggar konur héldu stuðningsfund fyrir utan næstu Ungfrú Ísland keppni
Brúðarbandið gæti spilað "sætar stelpur" og fleiri af sínum frábæru lögum
já, nei, einmitt ekki mótmælafund
heldur stuðningsfund
til að lýsa yfir stuðningi við þáttakendur keppninnar
tilkynna þeim, greyjunum, að þær séu svo miklu miklu miklu meira virði en þetta
þær eiga nefnilega greinilega voða bágt greyin því það gleymdist að segja við þær í æsku:

  • "mikið ertu klár!"

  • "mikið ertu dugleg!"

  • "mikið ertu skemmtileg!"

  • "mikið ertu góð!"

  • "mikið ertu sterk!"

  • "mikið ertu flink að..." eitthvað sem þær er örugglega flinkar í

  • og svo framvegis (fleiri góð "mikið ertu" eru vel þegin ;)


giska á að það eina sem þær hafi fengið að heyra sé:

  • "mikið ertu fín!"

  • "mikið ertu sæt!"

  • "svakalega ertu í sætum kjól!"

  • og annað álíka



hvers eiga þær að gjalda!
að hafa verið talið trú um það frá blautu barnsbeini að það eina sem þær gætu væri að vera sætar og að það skipti öllu máli. helst ættu þær að vera fallegastar á öllu landinu...

"og hvað með það?
mega þær ekki bara byggja sína sjálfsmynd á fegurð einni saman ef það er það sem þær vilja?" (lesist endilega með röddum sumra vinnufélaga minna...)

tja...
í fyrsta lagi þá völdu þær tæplega hvernig sjálfsmynd þeirra byggðist upp, það er uppeldislegt og félagslegt "afrek"
í örðu lagi þá er SVONA fegurð einmitt sú fegurð sem dofnar, og hvað verður þá um sjálfsímynd þeirra?
jamms, hún hrynur, eins og fyrrverandi nágrannakona mín í Montreal er gott dæmi um.
hún var fyrrum fegurðardís, ábyggilega enn undir fertugu, hefði enn talist falleg í hinum venjulega heimi, en í tískuheiminum var hún orðin gömul
hún var að missa vitið
grét og grét svo ég hafði ekki svefnfrið, á milli þess sem hún tók ofsafengin æðisköst í hvert skipti sem ég æfði mig að syngja
vesalings konan

ég er ekki að segja að þetta bíði allra fegurðardísa
flestar ættu þær að geta haldið sér "sætum" nógu lengi til að eignast mann og börn
börnin sjá svo vonandi um að halda í þeim vitinu í framhaldinu... eða hvað?

hey, en hvað meina ég eiginlega með SVONA fegurð?
jú þetta er einhver skringileg fegurð sem ég barasta skil ekki, sem þeir virðast vera að reyna að mæla í þessum keppnum
ég er alls ekki að segja að þessar stúlkur séu ófríðar
nei, enda þekki ég enga ófríða konu yfirleitt
þær eru líklega ágætlega sætar undir þessu öllusaman...
en það er bara alls ekki hægt að sjá framan í þær fyrir sólbrúnku, meiki, svartlituðum augabrúnum og þvílíkum augnskugga
(ég mála mig nú stundum, en þetta minnir nú meira á þegar við vorum að fikta við að setja stardust alla leið upp að augabrúnum til að sjokkera nú örugglega foreldrana, þarna á unglingsárunum í den)
já, ekki nóg með að þeim sé talin trú um að eina gildi þeirra liggi í fegurð, þeim er líka gefið að skilja að þær séu alls ekki nógu góðar eins og þær eru, heldur þurfi að dulbúa sig allverulega til að geta talist fallegar. ég veit ekkert um hvort þær eru farnar að fara í lýtaaðgerðir hér, en mér skilst að það sé orðið must annars staðar í heiminum. vesalings vesalings konurnar!
svo líta þær út eins og afskræmt plast í þokkabót...

ég held að um það bil allar konur sem ég þekki séu margfalt fallegri en yfirborðsplastið sem ég hef séð á síðum blaðanna undanfarinna daga (ungfrú þessi og hinn landshluti)
því sem betur fer eru flestar konur sem ég þekki frekar glaðar í eigin skinni (amk svona dags daglega)
þær vita að þær eru æðislegar fyrir eitthvað sem býr innra með þeim og geta þar af leiðandi margar hverjar geislað svo eftir því er tekið

þær eru heppnar
þeim var hrósað fyrir það sem skiptir máli

en vesalings fegurðardrottningarnar!
er ekki hægt að hjálpa þeim eitthvað?

3 ummæli:

  1. Mjög góður punktur - við ættum öll að taka okkur saman um að hrósa þeim fyrri eitthvað af þessum "Mikið ertu" af fyrri listanum ef við skyldum mæta þeim út á götu ;)

    SvaraEyða
  2. lol, þetta er bara fyndið;-)

    drekastrákur

    SvaraEyða