05 september 2004

Samsæri

Hef komist á snoðir um víðtækt og gríðarlega vel skipulagt samsæri. Nei, ekki kirkjunnar eða ríkisstjórnarinnar eða Kananna eða Norsaranna. Það mega aðrir sjá um að afhjúpa slík. Þetta samsæri er hvorki meira né minna en samsæri heillar kynslóðar gegn annarri.

Þannig var mál með vexti að þegar 68 kynslóðin var að byggja sér hús þá höfðu þau ákaflega miklar áhyggjur af því að börnin þeirra myndu aldrei kynnast þeim þrældómi og púli sem fylgir því að koma sér þak yfir höfuðið. Hugsið ykkur ef blessuð börnin gætu bara keypt sér tilbúið hús, málað og flutt inn! Nei, slíkt myndi algjörlega útrýma hinum mikilvægu vinnugildum (work ethic). Til að sporna við þessum framtíðarhörmungum datt einhverjum af 68 kynslóðinni snjallræði í hug:

VEGGFÓÐUR! Því maður málar ekki bara yfir það...
...en þau gætu rifið það aftur af! Hmmm, þá þurfum við að finna upp:

VATNSHELT VEGGFÓÐUR!!! Þú getur ekki bleytt límið, svo þú nærð því ekki af!

Snilld! Hvert parið á fætur öðru tók sig til og límdi skelfilega munstrað, vantshelt veggfóður upp um alla veggi, svo aumingja börnin þeirra, sem enn grunaði ekkert um sína dökku framtíð, fengu engu að síður martraðir um skrímslin sem þau gátu séð útúr skræpóttu mynstrinu.

Svo urðu börnin eldri. Fóru að glápa á sjónvarp í jafnvel heilan klukkutíma á dag. Ábyrgðalausa þætti eins og Prúðuleikarana og Dallas. 68 kynslóðin fór að velta því fyrir sér hvort bragðið myndi nokkuð duga. Eftir miklar pælingar komust samsærismennirnir og konurnar að einu rökréttu niðurstöðunni:

ANNAÐ LAG af VATNSHELDU VEGGFÓÐRI, YFIR HITT!!!

Og þar með var það tryggt, að fólk af okkar kynslóð fengi skilið hversu stórt og mikið mál það er að koma sér þaki yfir höfuðið. Vei þeim, illu vættum fortíðarinnar sem fundu upp veggfóður!

Jamm. Sumsé, af síðustu 5 dögum í Norge fóru:
4 í að ná tvöföldu vatnsheldu veggfóðri af veggjunum í höllinni
1 í að mála (loksins í dag!)
á morgun fæ ég svo að bera nokkra kassa... áður en ég flýg heim.

geisp!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli