15 maí 2006

flutningur og fleiri íbúar

Andrés kom heim frá Jótlandi, fékk lánaðan bíl, leigði kerru, og flutti okkur svo til Valby í einum grænum á 2 dögum. svona gerast hlutirnir stundum, og bílleysingjar verða að geta brugðist hratt við þegar hleypur á snærið.

á fimmtudagsmorguninn vöknuðum við í nýja húsinu okkar klukkan 06 um morguninn. eins og er sofum við í stofunni, því til stendur að mála svefnherbergið. það var hins vegar orðið svo bjart í gluggatjaldalausri stofunni klukkan 06, að við gátum bara ekki sofið lengur.

Andrés lét renna í bað handa okkur, en ekki tókst það betur en svo að heita vatnið dugði ekki í eitt baðker. Við fórum því í kalt bað.

Svo bjó hann til hafragraut handa okkur, en við áttum enga mjólk, og langt þangað til búðir opnuðu, svo mín fékk sér ávaxtadjús útá hafragrautinn.

þarna sátum við svo, nýkomin úr köldu baði, borðandi hafragraut með ávaxtadjús, og brostum út að eyrum yfir að vera komin í nýja húsið okkar.

svo drifum við okkur út að versla flóameðal, því einhverra hluta vegna vorum við komin með ný skordýrabit á hverjum morgni frá mánudeginum, og einmitt þennan morgun sáum við tvær flær stökkva um á löppunum á Andrési. við fundum ekkert flóameðal, en var sagt að þvo öll fötin okkar og okkur sjálf vel... það vorum við svosem búin að gera, nýkomin úr köldu baði.

fyrst héldum við að ég hefði fengið þetta í dýragarðinum, því ég var bitin fyrst, en svo var nú ekki, enda ekki flær sem halda sig á mönnum.

konan sem leigði þetta gamla hús á undan okkur (einstæð móðir með tvö börn), var með tvo ketti. kettirnir voru með flær, og flærnar voru búnar að verpa í glufunum í parketinu. ójá, nýja bjarta húsinu okkar fylgdu ansi margir íbúar sem neita að fara, og við erum nú að berjast við að útrýma. þær stökkva á okkur upp af gólfinu, drekka sig saddar, og fara svo.

erum búin að eitra tvisvar og í morgun leit þetta frekar vel út, en það er ekki víst að við losnum alveg við þær fyrr en við fáum þvottavél. hana erum við búin að kaupa, og fáum vonandi senda næstu daga. Erum annars búin með öll lökin og ég er í seinustu buxunum.

þetta hefur svo aftur valdið því að við erum ekki búin að koma miklu í verk í húsinu. það er ekkert svakalega girnilegt að fara að mála meðan verið er að éta mann.
en ég er að mestu búin að venja mig við danska hraðann.
hlutirnir gerast, hægt og rólega. en þeir gerast samt. á endanum.

knús og kossar,

:Dagbjört útétna

1 ummæli:

  1. Innilega til hamingju með húsið og tilveruna yfirleitt! Rosalega er gaman að lesa milli línanna hvað þér líður vel og ert hamingjusöm ;0)

    knús!
    Frú Hófí

    SvaraEyða