Alli litli var þreyttur og svangur þegar hann lagði af stað heim úr skólanum. Áttundubekkingarnir höfðu stolið nestinu hans, eina ferðina enn. Hann vildi ekki segja mömmu sinni frá því, því hann vildi ekki að bæta á raunir hennar. Mamma vann alltof mikið en hafði samt ekki efni á að kaupa handa honum ný föt. Pabba sinn hafði hann ekki séð í bráðum ár.
Í dag hafði kennarinn skammað hann eins og svo oft áður, því hann átti svo erfitt með að fylgjast með þegar hann var svona svangur. Hann var líka oft illa sofinn og uppstökkur, svo hann átti ekki marga vini.
Á leiðinni heim mætti hann hóp af krökkum sem flest komu frá vel stæðum og hlýjum heimilum. Þau voru flest öll góðir krakkar, og ekki vön að abbast uppá hann, en þennan dag var Óli með í hópnum. Óla fannst átti það til að gera ýmislegt til að ná athygli hinna og hann vissi fyrir hverju þessi ólundarlegi, horaði og skrítni strákur var viðkvæmastur.
"Alli, vissirðu að mamma þín er hóra?" kallaði hann í því sem Alli gekk fram hjá þeim.
Alli stansaði. Hann stóð kyrr í andartak, áður en hann sneri sér við og með ómannlegu öskri, stökk eins og köttur á Óla og lamdi hann og beit.
Hinir krakkarnir voru svo óvön svona slagsmálum að þau stóðu fyrst eins og þvörur og vissu engan veginn í hvorn fótinn þau áttu að stíga. Þau skildu ekki hvað amaði að þessum strák. Af hverju hann var alltaf svona reiður við allt og alla. Hann hlaut bara að vera eitthvað vondur. Það var bara eins og hann hefði breyst í villidýr. Vissi hann ekki að Óli sagði oft eitthvað heimskulegt, án þess að meina það?
Sum þeirra reyndu eitthvað að toga Alla af Óla, en þá var eins og hann fílefldist enn meir og sló þau frá sér og glefsaði.
Þessi söddu börn sem höfðu allt sem Alla skorti og höfðu aldrei þurft að hafa áhyggjur af einu og neinu, og réðust á það sem honum var allra kærast, voru allt í einu orðin holdgervingar alls óréttlætis þessa heims sem hataði hann. Þar sem allir voru vondir við hann. Öll hans reiði og allar hans sorgir brutust fram eins og óstöðvandi flóð svo honum sortnaði fyrir augum af bræði.
Eitt barnanna ákvað að hlaupa og ná í kennarann...
Verður fundur um málið hjá skólastjóranum? Ætli Alli verði jafnvel rekinn úr skólanum?
Kannski ekki mín best skrifaða dæmisaga, en punkturinn er: Til hvers erum við sem allt höfum að níðast á olnbogabörnum veraldarinnar?
06 febrúar 2006
mál málanna
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
nestið er ekki málið
SvaraEyðabara ábending ;-)
ds
ég meina :-D
SvaraEyðads