05 febrúar 2006

Fyrir þjóðina

Réttupphönd sem horfðu á undankeppnina á laugardaginn

Ég heyrði í fréttunum að einhver hinna keppendanna hefði lagt fram stjórnsýslukæru vegna lekans, því hann hefði veitt Silvíu og co. óréttlátt forskot.
Mér fannst niðurstaðan sem virtist hafa fengist í málinu fyrir helgi vera sanngjörn og góð. Að leyfa einu lagi enn að komast áfram í úrslit og draga því úr þeim hugsanlega skaða sem þetta gæti fræðilega valdið öðrum keppendum.
En nei, einhver ákvað að vera erfiður og leggja fram stjórnsýslukæru. Hvað heldur viðkomandi eiginlega að sé tilgangurinn með þessari keppni? Þetta er ekki spretthlaup þar sem einhver þjófstartaði, eða spurningakeppni þar sem einhver komst yfir spurningarnar fyrirfram. Þessi keppni er ekki haldin fyrir höfundana og flytjendurna. Hún er haldin fyrir þjóðina. Haldin til þess að leyfa þjóðinni sjálfri að velja hvaða lag hún vill senda til Aþenu.

Ef þjóðin vill senda Silvíu Nótt, þá á að sjálfsögðu að gera það.
Ef þjóðin vill hana ekki, þá sigrar hún einfaldlega ekki.
En að reyna að láta taka hana úr leik með stjórnsýsluskipun, þjónar það hagsmunum þjóðarinnar?

Eitt enn: Það er ástæða fyrir því að þetta lag lak á netið. Hún er sú að þjóðin (á netinu) vildi heyra það. Ég fékk það með tölvupósti (mér til nokkurs uppnáms, því ég þekkti reglurnar) og titillin á póstinum var "Loksins gott lag!". Ég reyndi meira að segja að benda fólki á að dreifa því ekki, en það hlustaði svosem enginn á það. Allir vildu fá að heyra það.

Þjóðin á valið. Við skulum sjá hvað hún vill.

2 ummæli: