27 janúar 2006

ESB og þjóðarstoltið

þar sem ég fer nú svona hvað úr hverju að versla mér stakan farmiða til Köben...
(bara svona til að sjá hvað gerist og hvort þetta endist :)
... þá sumsé eru sumir alltíeinu farnir að vera voða viðkvæmir fyrir ákaflega meinlausum og týpískum athugasemdum frá mér um hvað Íslendingar eiga það til að vera gallaðir (minnir að ég hafi tjáð mig um vetrarakstur eða skort á sköfun, eins og ég geri örugglega á hverjum vetri)
viðkvæmir eins og ég sé nú búin að svíkja Ísland og orðin Dani, og hafi því engan rétt að á tjá mig um íslenska misbresti, rétt sem Danir hafa auðvitað ekki, enda kunna þeir alls ekki að keyra í snjó ;)
en vá, ég er ekki og verð aldrei Dani
mun aldrei byrja að reykja til að líkja eftir Möggu Tótu, né syngja danska ættjarðarsöngva um áramótin (heldur standa kjánaleg hjá og bíða í klukkutíma eftir að það séu komin áramót á Íslandi)

ég er og verð alltaf Íslendingur, fyrst og fremst, og sem slíkur má ég alveg tjá mig um hvað mér finnst mega betur fara hér heima.
reyndar held ég stundum að ég sé meiri þjóðernissinni en flestir sem ég þekki, og ég er alls ekki búin að gleyma því frá hverjum við hlutum frelsi.

og þá að ESB
ég er loksins og (að öllum líkindum) endanlega búin að gera upp hug minn varðandi aðild Íslands að ESB. (Alltaf þegar þetta er á annað borð rætt er gert ráð fyrir að þeir gæfu undan hvað varðar fiskinn - annars dytti engum heilvita Íslendingi þetta í hug).
Þegar ég var að skoða háskólanám, fyrir um 9 árum, þá óskaði ég hálfpartinn að við værum í ESB svo ég kæmist nú hvert sem er í háskóla. Nám og vinna hvar sem er í Evrópu, það eru jú kostirnir. Vissi samt innst inni að Jón og Jónas og allir hinir börðust ekki fyrir frelsinu til þess eins og láta það af hendi til Breta, Þjóðverja, Frakka og Spánverja.
Hin síðari ár hef ég svo haft hin og þessi samskipti við sum af þessum löndum, vegna vinnu. Skrifræðið og seinagangurinn í Frökkum er nóg til að gera venjulegan Íslending (og Gaulverja) gjörsamlega vitlausa. Bretar eru 70 - 200 árum eftirá í samfélagsgerð og jafnrétti milli manna og manna, ekki síður en manna og kvenna. Allt verður að fara eftir einhverjum fáránlegum goggunarleiðum...
Smátt og smátt fór ég að hallast meira á móti.
Svo ákvað ESB að gulrætur væru ávextir, af því að þær eru notaðar í sultugerð!

En svo var það Andrés sem varð til þess að ég gerði endanlega upp hug minn. Það sem hann sagði mér af ESB og reynslu Dana. Það sem sumir vita, en fæstir kjósa að muna.
Við vitum öll að auðlegð Breta, Frakka, Spánverja, Hollendinga, Portúgala og hverjar þessar þjóðir nú voru allar, byggðist upp á að arðræna nýlendur út um víða veröld. Jájá, hræðilegt, allir vita það osfrv.
Nú sumsé þykjast þessar þjóðir vera hættar því. Kannski af því að þær gera það, nú, helst í gegnum ESB. Byggja sitt ríkidæmi á að viðhalda fátækt annars staðar. Og ekkert sérstaklega óbeint heldur.
Þetta sagði Andrés mér:

"Sælgætisverksmiðja í Suður-Afríku kaupir ekki sykur af bóndanum á næsta bæ. Hann kaupir sykur sem er fluttur inn frá Danmörku. Vegna þess að hann er ódýrari. Ha? Jú fyrst fá danskir bændur ESB styrk af því að þeir eru jú bændur, og svo fá þeir meiri ESB styrk af því að þeir flytja vöruna út! Þannig að þrátt fyrir að búið sé að flytja sykurinn alla þessa leið, þá er hann samt ódýrari en fátækur bóndi í Suður-Afríku getur tekið fyrir sykurinn sinn. Þess vegna getur hann engan sykur selt, eða selur hann svo ódýrt að hann fer bara á hausinn."
Einhver hissa á fátæktinni í Afríku, ef þetta er bara eitt dæmi um hvað ESB er að gera? Einhver sem hélt að BNA væru þeir einu sem væru að $%#$&$%&#&$#% heiminum?

og svo þjóðarstoltið
já, það er svo sem ekki margt sem við Íslendingar getum raunverulega verið stolt af, umfram aðrar þjóðir.
loftið er bara hreint af því að vindurinn blæs allri menguninni okkar í burtu - það höfum við séð, þá sjaldan að hér er logn.
ég hef séð gullfallegt fólk í mörgum öðrum löndum.
Fjölmiðlarnir okkar eru orðnir jafn lágkúrulegir og annars staðar, fólkið jafn gráðugt og sjálfselskt og í ameríku (amk um helmingurinn), og fallega landið okkar er að breytast í eina stóra álverksmiðju.

En við getum verið, og eigum að vera, stolt af því að okkar auðlegð og hagsæld var ekki á neinn hátt byggð á þjáningum annarra þjóða (amk ekki síðustu 800 ár).
Hún er byggð á krafti og vinnusemi kynslóðanna á undan okkur, fólksins sem byggði hús og flakaði fisk myrkranna á milli, í einskærri gleði yfir að hafa einhverja vinnu, og breytti þannig Íslandi úr fátækasta landi Evrópu í eitt ríkasta land heims á innan við öld.
(Já einmitt, fólksins sem við viljum núna helst loka inni á einhverjum stofnunum svo við þurfum ekki að sjá hvernig við munum einhvern tíman verða, þ.e. gömul.)
Við megum vera stolt af þeim. Og af því að enn þann dag í dag erum við ekki að arðræna fátækar þjóðir. Vonandi munum við aldrei taka þátt í slíku.

og líkur hér með ræðu kvöldsins ;)

húrra fyrir Íslandi

1 ummæli:

  1. Djöfull fannst mér seinasta málsgreinin í þessum pistli alveg afgerandi frábær! :D

    SvaraEyða