Ég hef nokkrum sinnum verið spurð að því hvort ég haldi nokkuð jól, fyrst ég trúi ekki á guð. Þess vegna langar mig til að útskýra örlítið, um hvað jólin snúast:
Jólin snúast ekki um fæðingu frelsarans. Við vitum öll að Jesús Kristur (sem mér þykir reyndar voða vænt um) fæddist alls ekki 25. des. Það var Konstantín eða hvaðannúhét Rómarkeisari sem bjó til hina kaþólsku kirkju einhvern tíman um 300 eftir Krist, sem þurfti að sætta heiðingjana við nýja siði. Þeir dýrkuðu sólina og hvíldust því á sunnudögum, og héldu sína helstu hátíð þegar sól fór aftur að hækka á lofti. Svo Konstantíneðahvaðannúhét sagði "ok, við verðum kristin og trúum á einn guð föður almáttugan, og þið megið halda hvíldardaginn á sunnudögum og hafa aðalhátíð um vetrarsólstöður". Svo einfalt var það. Alveg eins og þegar Þorgeir ljósvetningagoði kom undan feldinum og sagði "ok, við verðum kristin en megum blóta í laumi og éta hesta". ( Og ekki gleyma að víkingarnir okkar héldu að sjálfsögðu líka jól, eða jólablót.)
Þetta skiptir auðvitað engu máli í dag. Kristnir mega alveg endilega halda uppá fæðingu Jesú á þessum degi. Þetta er bara til að sýna fram á að þeir eiga alls ekki einir þessa hátíð.
Jólin eru hátíð ljóssins. Þau koma okkur í gegnum þetta hræðilega svarta skammdegi sem hefði annars fyrir löngu gert út af við íslensku þjóðina. Við lýsum um skammdegið og fögnum því þegar lengsta nóttin er liðin að daginn fer aftur að lengja.
Jólin eru hátíð fjölskyldunnar. Þau snúast um að hlúa að þeim sem okkur þykir vænt um, minna þau á að þau eiga okkur að. Þau snúast um félagsskapinn og kærleikann. Ef við viljum ausa gjöfum yfir þá sem okkur þykir vænt um, þá megum við það líka, en það er samt nærveran sem skiptir mestu máli. Enginn ætti nokkurn tímann að fá að vera einn á jólunum.
Bróðir minn stríddi mér aldrei á jólunum. Það er jólaandinn. Andi friðar, umburðarlyndis og kærleika. Allir sem hafa fundið hann vita um hvað ég er að tala, og þeir vita líka að hann á alltaf við, hvort sem fólk trúir á Jesú, bara guð, Frey, einhvern annan eða alls engan.
Eitt enn: það er ekki mjög kristilegt að vera eigingjarn á jólin og ætla að banna trúlausum að halda jól. Jesús kenndi umburðarlyndi, fyrirgefningu og frið. Við skulum öll sömul halda áfram að breiða út þann boðskap með því að breyta eftir honum sjálf.
Gleðileg jól öll sömul! Knús og kossar til ykkar allra!
Dagbjört jóladís
22 desember 2004
Jólahugvekjan
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli