11 janúar 2007

2006

smá uppgjör

árið 2006 var gott ár
lærdómsríkt
stundum erfitt
en gott
og skemmtilegt

ég lærði að búa með manni
sameina tvö líf

ég lærði að það er eðlilegt að takast á, svo framarlega sem leyst er úr því, og við leysum alltaf úr því. En við fyrstu átök fór ég í algjört kerfi og langaði til að hlaupa eins langt í burtu og ég gæti. núna reyni ég að anda rólega, setjast niður í einrúmi og róa mig ef ég kemst í uppnám, svo ég geti séð hlutina í skýru ódramatísku ljósi áður en við leysum úr þeim.
ég er þeirrar skoðunar að það sé þúsund sinnum betra að tala um hlutina frekar en að láta sig hafa það og grafa þá niður í undirmeðvitund þangað til sambandið er orðið biturt eða kona er orðin sjálfskipaður píslarvottur af því að hún nennir ekki að byðja manninn sinn um að hjálpa til við heimilisverkin (því hann á sko að fatta það sjálfur). það kemur bara ekki til greina að ég verði þannig, eða þjónn, og Andrés fær alveg að heyra það ef hann tekur ekki eftir því sem ég geri, eða það er langt síðan hann tók uppvaskið. honum finnst það líka allt í lagi af því að það kemur svona stöku sinnum allt í einu, en alls ekki nöldur á hverjum degi. svo er líka hægt að haga orðum og tóni þannig að það sé frekar sætt en pirrað...

á þessu ári fékk ég upplifa tilfinningaveruna mig eins og hún hefur ekki verið síðan ég var unglingur, og mér finnst það bara frekar æðislegt. kannski hef ég ekki verið svona mikið lifandi síðan '97 ?
hún er samt algjör rússíbani og ótrúlegt að ég hafi fundið mann sem er hennar jafnoki í öllu og einu. smátt og smátt höfum við verið að finna ákveðið jafnvægi, en við erum samt bæði þannig að engir tveir dagar eru eins.

það var nú ekki pláss á þessu ári fyrir mikið annað en Andrés
tónlistin fékk að sitja töluvert á hakanum, og það eina sem ég náði að klára var jólalagið, en ástandið skánaði með haustinu þegar það fór að vera mikið að gera í skólanum hjá Andrési.

ég fékk algjöra óbeit á vinnunni minni, og þurfti að pína mig á fætur á mornanna. skemmtilegasti hluti dagsins var að hjóla í og úr vinnu. ég er ennþá með ógeð, og fæ eiginlega í magann þegar ég hugsa um tölvuvinnu. stundum langar mig bara til að gerast bréfberi...

annars eyddi ég alltof miklum tíma á flugvöllum, fór til Montreal og Noregs og Köben og flutti til Köben og fór til Íslands og Noregs og labbaði Fimmvörðuhálsin og slapp naumlega úr klónum á Krossá. svo byrjaði ég í körfu og varð miklu betri í dönsku og las nokkrar frábærar bækur. ég samdi líka nokkur flott lög, þó þau séu ekki alveg tilbúin ;)

takk fyrir árið 2006

*knús og kossar*

:Dagbjört dísulísutónlistarskvísa

Engin ummæli:

Skrifa ummæli