29 nóvember 2007

minnsti samnefnarinn

hér í Danmörku eru karlmenn móðgaðir trekk í trekk með að alhæfa um þá út frá minnsta samnefnara. það gerist reyndar oft líka með okkur konur.

hann Andrés minn varð frekar móðgaður þegar hann las bækling um að verða pabbi, þar sem stóð í dálki, um fyrstu dagana heima eftir fæðinguna, að það væri ágætt ef pabbi pantaði pizzu því mamman væri svo þreytt. meistarakokkurinn vildi meina að hann væri nothæfur í töluvert meira en það "og auk þess er þetta óhollasti skyndibitinn" bætti hann við.

nokkrar vinsælar bandarískar seríur ganga beinlínis út á þennan minnsta samnefnara karlmanna - frægastur af þeim er væntanlega Homer Simpson - svo smátt og smátt fer maður að halda að allir bandarískir karlmenn hljóti að vera fávitar.

og þar sem bandarískra áhrifa gætir alltaf sterkar heima á Íslandi þá kemur ekki á óvart að farið sé að tala niður til karlmanna út um allt. já og kvenna.

lélegir fjölmiðlar eru sérstaklega duglegir í þessu, og visir og mbl eru því miður ekki skrifaðir á dýran pappír.

en lægsti samnefnarinn yfir konur sem missa sig í 8000 fm verslunarhúsnæði tímunum saman og pína mennina sína með, og lægsti samnefnarinn yfir karlinn sem lætur pína sig með en vill helst vera heima og horfa á fótbolta er kannski bara aðalmarkhópur Hagkaupa. við konur sem finnst ekki svo gaman að versla, eða töpum okkur amk. ekki í neyslufylleríinu, við eyðum hvort eð er ekki nógu miklum peningum...

má samt ekki hafa annan skjá með einhverju öðru en fótbolta?
ég er nefnilega ansi hrædd um að ég verði dregin þarna inn af mínum manni, ef ekki nema til að sjá slottið, því það var tengdapabbi sem byggði herlegheitin...
og ég held það myndi líða yfir mig ef ég þyrfti að fara þarna í gegn án þess að fá að setjast niður

get alveg sætt mig við t.d. Top Gear, sem höfðar jú til beggja kynja
eða fréttir :D


fyrirgefiði, en þið Íslendingar eruð orðin klikk með allar þessar risaverslanir. hafiði í alvörunni ekkert betra að gera á laugardögum ???

ég veit að veðrið er vont, en væri ekki hægt að nota allt þetta pláss undir eitthvað annað skemmtilegt innandyra helgarfjör en verslanir ?


:Dagbjört prímtala sem er farin að lesa eyjuna oftar og mbl sjaldnar

28 nóvember 2007

ekki of mikið blátt takk

jæja, hangi lasin heima og hef þá loksins tíma til að blogga smá
hef ekki verið svona lasin síðan ég flutti til Danmerkur, svei mér þá!
kvef, hálsbólga og ljótur hósti

ljósmóðirin skipaði mér að synda tvisvar í viku, og svo hef ég verið í pílates líka, svo það er stíft prógram eftir vinnu og oft erum við fyrst komin heim um 8 leytið, frekar þreytt bæði tvö og í því ásigkomulagi bloggar maður nú ekki mikið af viti.


en að pælingu dagsins:

blá föt á litla drengi
áður en við fengum að vita kynið ræddum við mikið um hvernig við gætum komið í veg fyrir að fá alltof mikið bleikt ef þetta væri nú stelpa.
en eftir að hafa skoðað ungbarnaföt á stráka hef ég komist að þeirri niðurstöðu að blái liturinn á stráka er bara ekkert skárri !!!
það er alveg jafn slæmt og væmið að klæða stráka bara í blátt og að klæða stelpur bara í bleikt.
ekki að blátt geti ekki verið sætt, með öðrum litum, en vá hvað sumir foreldrar kaffæra litlu drengina sína í bláu!!!

og það eru einmitt til svo margir fallegir litir á litla drengi:

  • grænn

  • appelsínugulur

  • brúnn (líka fallegur með bláu)

  • hvítur

  • gulur

  • rauður (sem mér skilst að sé næstum ómögulegt að fá á drengi)



svo erum við voða hrifin af dýra og risaeðlumynstri enda sonur líffræðinörds á leiðinni :þ

ég er annars búin að fá fullt af barnafötum frá storesös, svo það er varla að mig vanti neitt, sérstaklega ekki í minnstu stærðunum.
ég ætla kannski að sauma einn bangasagalla úr rauðbrúnu flísefni sem ég keypti einu sinni í íkornabúning en notaði ekki...
kannski það verði heimkomugallinn hans.

er frekar svekkt að geta ekki prjónað neitt, en vegna sinaskeiðabólgu kemur það ekki til greina
mér finnst fátt eins sætt og prjónadót á svona lítil kríli


og þar kom fyrsta mömmubloggið
en þetta eru svona smá pólitískar pælingar líka

annars erum við Erna að taka upp aftur jólalagið frá í fyrra og svo er ég að reyna að hnoða saman texta fyrir jólalagið í ár, en það stendur til að við Andrés syngjum það saman.

hvenær maður á að hafa tíma í þetta allt er svo annað mál, því allt þarf að vera búið 14. des, því þá flýg ég heim til Íslands :D

knús og kossar

:Dagbjörtin með Andrésson í bumbunni