29 september 2004

hraðís-kassi

ísbúðin mín, í næstu götu, gerir besta ísinn. það er hægt að velja um gamla mjólkurísinn eða nýja rjómaísinn. báðir himneskir.
í kvöld fór ég þangað klukkan 22, til að ná mér í smá skammt af sjaldgæfu sukki
biðröðin náði útá götu, eins og svo oft í sumar
nú er hins vegar 28. september og ekkert hlýtt
ég beið í 30 mínútur eftir ís
það voru 6 eða 7 manns á undan mér
allir með þeyting
þeytingsfólk
eins og flestir íslendingar
tekur 5 mínútur að afgreiða hvern þeyting
tók innan við mínútu að afgreiða mig...

væri SVO til í svona hraðkassa í ísbúðum
fyrir þá sem vilja kaupa ís í brauði eða boxi

annað:
þeytingur er ekkert annað en dulbúið sælgæti
álíka mikið og 1/3 lítri af ís OG eitt súkkulaðistykki, jafnvel meira
sumsé, þeir sem fá sér þeyting eru að fá sér bæði ís OG nammi
það er samt ekki þess vegna sem ég er ekki þeytingskona.
mér finnst ísinn bara bestur eins og hann er, án frosins og harðs súkkulaðis

verði ykkur að góðu ;)

27 september 2004

mánudagsógleði

í dag bý ég ein í stórum helli
það er erfitt að rata inní hann, því engum hefur tekist að finna opið
nema mér
ég er búin að mála myndir á suma veggina
það er reyndar svo mikið af veggjum að ég gæti málað áfram til eilífðarnóns
ef ég verð lokuð inni svo lengi
en til hvers að mála þegar enginn getur séð það?

áðan fór ég út til að mála fyrir heiminn
en þá kom hýena og át úr mér magann

24 september 2004

tilvitnun dagsins

Spillti gamli karlinn: "If you're finished, this is the men's room!"
Sydney Bristow: "Who let you in?"

úje!

Konur sem lemja vondu karlana í klessu

seinir kanar...
einhvern tímann í kringum 1990 fékk ungur maður, sonur sterkrar móður, einkar framúrstefnulega hugmynd.
hann vildi taka sætu stelpuna í hryllingsmyndunum úr fórnarlambsstöðunni, og gera hana að aðalhetjunni.
klikkun?
í upphafi 10. áratugarins: já!
Kvikmyndaver sem ákvað að framleiða myndina hans gat ekki skilið hugmyndina öðruvísi en brandara. Hann var á undan sinni amerísku samtíð. Gekk út áður en myndinni var lokið, en engu að síður kom hún í kvikmyndahús árið 1992. Frekar þunn...

Spice
nokkrum árum síðar tóku 5 breskar stelpur sig saman og stofnuðu hljómsveit. engin þeirra var afburða hæfileikarík, falleg né mjó, en saman voru þær algjört æði, bókstaflega. þær urðu einfaldlega einhver frægasta hljómsveit í heimi fyrr og síðar.
og slagorðið var:

Girl Power!

og þar með hófst byltingin. allt í einu fannst engum asnalegt að stelpur væru hetjur eða flottar eða merkilegar.
eitt stykki sjónvarpsstöð hringdi í unga ameríska manninn, sem var þá reyndar orðinn rúmlega þrítugur, og bauð honum að endurlífga hugmyndina um ofurhetjustelpuna.
í kjölfarið komu 7 þáttaraðir af sjónvarpsþáttum sem gjörbreyttu viðmiðum í sjónvarpi og kvikmyndum. Þættirnir sameinuðu óborganlegan húmor við hrylling, spennu og átakanlegt mannlegt drama sem flestir geta samsamað sig við. Og að sjálfsögðu:
Ljóshærða sæta stelpan er hetjAN, aðal mesta flottasta og bestasta hetjan, og hún lemur karlkyns, kvenkyns og hvorugkyns vondu karla í klessu sjálf, og bjargar heiminum aftur og aftur. stundum nýtur hún reyndar aðstoðar bestu vinkonu sinnar, sem er alveg súperklár stelpa.
sumsé snilldin:

Buffy the Vampire Slayer

og nú kippir sér enginn lengur upp við að sjá gellur taka kung fu spörk hægri og vinstri. Þær sem eru mest áberandi þessa dagana eru:


  • The Bride, aka. Black Mumba (meistaramorðingi úr Kill Bill)

  • Sydney Bristow úr Alias (ok ekki kannski raunsæjustu þættir í heimi, en vá hvað er gaman að horfa á hana taka þessa gömlu spilltu karla í bakaríið)

  • Fa Mulan sem bjargaði Kínaveldi frá vondu Húnunum.

  • Charlies Angels (ok froða froða...)



nennti ekki að sjá Catwoman. búningurinn var blátt áfram niðurlægjandi!
það og sú staðreynd að aðalvondikarlinn var kona bendir til að höfundarnir hafi algjörlega misskilið hugtakið "Girl Power!" pppppffffffft

hugtakið
snýst að sjálfsögðu um að konur sigri karlmenn, en ekki aðrar konur. sannleikurinn er nefnilega sá að við þurfum allar að vera ofurhetjur til að komast áfram. mamma hafði því miður rétt fyrir sér. við erum enn að slást. þurfum enn að taka kung fu spörk hægri og vinstri.


sem betur fer er stríðið lengra komið hér heima og á Norðurlöndunum en annars staðar í heiminum. ástæðan? jú, við vorum einfaldlega nokkrum áratugum á undan. hér var það nefnilega kona nokkur sem fékk snilldarhugmynd. framúrstefnulega. frábæra. það sem meira var, hún setti hugmyndina í barnabók sem breytti heilli kynslóð. og kynslóðinni þar á eftir líka. hún bjó til mestu og flottustu og sterkustu ofurhetju allra tíma í líki rauðhærðrar stelpuskjátu í mislitum sokkum.

ojú, Lína Langsokkur er VÍST sterkasta ofurhetjan í öllum heiminum og hún myndi VÍST geta lamið Superman og alla hina DC og Marvel karlana í klessu, án þess að svitna!

og hananú!

23 september 2004

opið bréf til hins eina sanna Davíðs



Elsku Davíð!

Ég veit að ég er engann veginn þess verðug að semja tónlist handa þér
en ég bara verð

þú átt orðin
ég skil

ég sem vildi óska að ég héti Dísa, á meðan blómin anga...
...en nú kemur bráðum vetrarnóttin og breiðir hlýju vængina sína yfir mig
og þig

engin íslensk kona sem hefur kynnst þér er ósnortin.
hvernig getur karlmaður skilið konu á þennan hátt?
lífið, ástina, sorgina. allt.
þú ert ómótstæðilegur!

svo þú skilur, að ég bara verð fá að dýfa lúkunum í brunninn þinn
djúpa

að minnsta kosti einu sinni

náðarsamlegast

Dagbjört dís Jónsdóttir

p.s. krummi gamli er svartur, og krummi er fuglinn minn

19 september 2004

Og enn er verkfall

Skil ekki alveg þessi nútíma verkföll. Finnst þau ekki bera neinn árangur. Bara skaða. Skaða nám barnanna. Skaða ímynd kennara.
Skil ekki af hverju þarf að leggja menntakerfið á hliðina í 6 vikur + til áður en hægt er að ná samningum. Af hverju er ekki bara hægt að gera sömu samninga strax? Getum við ekki bara farið í pínu ímyndunarleik og þóst vera komin ca. 8 vikur fram í tímann, og gert okkur í hugarlund hver niðurstaðan yrði. Sest svo niður og skrifað undir. Og sjá! skóli á morgun!
Nei! nei! nei!
Það má ekki semja við kennara! Þá kemur nebblilega verðbólga. Ef kennarar fá launahækkun þá vilja allir launahækkun. ppppppffffffffffft!
Getum við þá ekki bara kallað þetta launaleiðréttingu? Það er eins og allir séu orðnir svo vanir að kennarar séu láglaunastétt, að þeir mega ekki fá það sem þeim ber í samræmi við sína menntun. Þetta er nú meira ruglið!
Getum við ekki bara búið til einfalda launaformúlu sem allir eru sáttir við?

Dæmi:
Lágmarkslaun ómenntaðra: 100.000 kr (þessi tala er notuð til einföldunar)
Fyrir hvert ár í Háskóla: 50% af lágmarkslaunum bætist við.
Fyrir hvert ár af reynslu: 20% af lágmarkslaunum bætist við.
Fyrir hvert æviár: Ekki króna bætist við því fólki er ekki mismunað eftir aldri

Þetta er bara dæmi um formúlu. Semja má um hvaða tölur eru hvar. En samkvæmt þessum tölum væru byrjunarlaun kennara 300.000 krónur. Helmingur þjóðarinnar er með yfir 300.000 (skv. síðustu skatttölum) - er ekki eðlilegt að kennarar séu í þeim hópi?
Reiknum áfram: Byrjunarlaun unglækna væru 400.000 kr, tölvunarfræðinga 250.000 kr, verkfræðinga 350.000 kr og svo framvegis.

Og svo ekkert múður. Bara sátt.

17 september 2004

Guði sé lof fyrir íslenska karlmenn

Án þeirra væri ég löngu dauð úr pirringi.
Ég er ekki að segja að ALLIR útlenskir karlmenn séu óþolandi fordómafull karlrembusvín, en af 8 erlendum gestum okkar í gærkvöldi voru 3 sem gátu fordóma sinna vegna ekki orða bundist, og þar af einn á alveg einstaklega ógeðfelldan hátt.
"Þú fallega kona! Ekki þú gáfuð! Af hverju þú vinna hjá hátæknifyrirtæki? Þú ritari? Þú dansa við mig!" (lesist með tilheyrandi káfi)
Gubb gubb gubb!!!

Kona er orðin svo góðu vön að búa á Íslandi, þar sem svona karlmenn eru svo til útdauðir (hef heyrt orðróm um einn, en hann er óstaðfestur). Kona heldur bara að þessi viðurstyggilega tegund manna hljóti að vera útdauð í öllum heiminum. Svo hittir kona útlendinga:
"Jújú, konur fara alveg í háskóla! En þær fara þá í fög eins og sálfræði o.s.frv."
(Ekki að ég hafi neitt á móti sálfræði. Við erum bara að tala um fordóma.)

Í dag langar mig að taka alla útlenska karlmenn, tjóðra þá við vegg, skvetta framan í þá ísköldu vatni og halda yfir þeim langa reiða ræðu.

Hingað til hafa rökin verið:
"Ef allar fallegar konur væru heimskar, þá væru allar íslenskar konur heimskar, en þær eru einmitt flestar bráðgáfaðar, sjálfstæðar og glæsilegar!"
og
"Ef allar ljóshærðar konur eru heimskar, hvernig geta þá Norðurlöndin verið fremst menntaðra og tæknivæddra þjóða og líka lengst komin í jafnréttisbaráttunni!"

þetta eru greinilega ekki nógu sterk rök, því þeir kinka bara kolli og bjóða manni að dansa. Ggghhhhhhhkkkkk

Næst ælta ég að reyna:
"Var/er mamma þín falleg?"
svarið hlýtur að vera jákvætt, því allar mömmur eru fallegar.
"Var/er mamma þín heimsk?"

Point proven!

Hamingjunni, guði, Jesú, ásum og öllum góðum vættum sé lof fyrir íslenska karlmenn.
Ef einhver slíkur les þetta:

*knús knús knús og kossar* fyrir að vera til

15 september 2004

stólasvissið

Sá endann á viðtali við nýskipaðan forsætisráðherra í kastljósi. Þegar ég kveikti var hann að segjast myndu nú verða að leiða ríkisstjórnina með hagsmuni Framsóknarflokksins að leiðarljósi en líka... eitthvað um Sjálfstæðisflokkinn.
Voðalega hlýt ég að vera bláeygð. Ég hélt nefnilega að forsætisráðherra hefði alltaf hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Kjánalega ég.
Hvaða, hvaða! Ég heyrði bara þessa einu tvær línur. Er viss um að ég missti af öllum frábæru hlutunum sem hann sagði um hvað hann ætlaði að gera okkur til góðs. Lækka skatta og fleira. jibbí!
Bind miklar vonir við Davíð í utanríkisráðuneytinu. Hann er röskur og skynsamur og hefur ekki gaman af að spreða í alls konar vitleysu. Er því vel treystandi til að skera all svakalega niður í utanríkisþjónustunni. jibbí!

14 september 2004

Greinin VAR í mogganum

Á laugardaginn var, 11. september.

og hananú!

afmælislexían

Eitt sem ég hef lært í gegnum tíðina:

Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að fólk muni eftir afmælinu þínu.
Ástæðan:
Það er ekki það, að fólk muni ekki hvaða dag þú átt afmæli. Það bara áttar sig ekki á því hvaða dagur er akkúrat í dag. Þess vegna er mjög ósanngjarnt að fara í einhverja fýlu.
Lausn:
Segðu fólki frá því að þú eigir afmæli, þ.e.a.s. ef þú vilt fá afmælisathygli. Eftirfarandi virkar alltaf vel:
- Setja "ég á afmæli" inní msn-nafnið þitt
- Klæða þig extra mikið uppá
- Segja fólki einfaldlega frá því, annað hvort beint eða með því að lauma því inn í samræður:
"Finnst þér ekki töff peysan sem ég fékk í afmælisgjöf í morgun?"


Eitt sem ég lærði núna á fimmtudaginn:

Rauður varalitur býr yfir einhvers konar töframætti!
Tók mér alveg extra langan tíma til að dekra við mig um morguninn. Gerði hárið fínt og málaði mig pínku (sem ég geri yfirleitt ekki svona dags daglega). Vegna þess að ég fékk rauða peysu frá storesös, þá setti ég á mig rauðan varalit í stíl. Og viti menn! Það fór sko ekki fram hjá neinum að ég átti afmæli! Meira að segja strákarnir í vinnunni sem taka aldrei eftir neinu svona (yndislegir tölvukallar sem gæti ekki verið meira sama um hvernig maður er til fara), tóku eftir rauða varalitnum!
"Hvað kemur til?"
"Ég á afmæli!"

Úúúúúje!
Fékk svo mikla afmælisathygli að allri athyglisþörfinni er svalað næsta árið.

eða svona nokkurn veginn...

11 september 2004

Uppskeran þetta árið var:

- Æðislega töff rauð hettupeysa frá storesös og co.
- voða sætt blátt hálsmen frá storesös og co.
- diskurinn með Iskoret frá manninum hennar storesös og co.
- bókin "The Fabulous Girl's Guide to Life" frá ze beib Fritz
- ilmandi gott bodysprey frá minni heittelskuðu ektakvinnu sem meira að segja eldaði handa mér ljúffengan kvöldverð :)
- grúví plat plat blóm (já sumsé ekta blóm sem lítur út fyrir að vera plat) frá m&p
- voða sætur vasi undir platplatblómið frá m&p
- fullt fullt af knúsum, kossum og hamingjuóskum - munnlegum, sms-uðum og msn-uðum
- og fullt fullt af athygli :)

svo fæ ég skrifborðsstól á morgun frá m&p til að koma í veg fyrir að ég eyðileggi í mér bakið við allar tónsmíðarnar :)

EN

auk þessa er ég nýbúin að fá fullt af flottum innflutningsgjöfum:
- Tröllakúst (er til meira töff nafn á blóm?) frá SJH, sem lifir góðu lífi í stofunni
- Ilmandi bleikar rósir í potti frá tröllakóngi og co, sem bara hætta ekki að blómstra :)
- Gustav Klimt mynd - mmmmmmmm - sem núna hangir yfir rúminu mínu, frá mein Onkel og co. (þmt Önnu2 en meira um það síðar)

hmmm, það sem ég vildi sumsé segja með þessu bloggi er:

!!!TAKK FYRIR MIG!!!

09 september 2004

Afmælisbarn dagsins

er ég
af því tilefni verður vígt nýtt júmbókrullujárn
ný peysa frá storesöster

svo verður sólskinsbrosið á extra mikilli orku

það verður ekkert partý þetta árið - líklegast ekki fyrr en eftir 3 ár...

knús og kossar til allra sem eru búnir að senda mér SMS eða MSN kveðjur

:D

á morgun

á morgun hlýtur greinin eftir mig að birtast í mogganum
af hverju?
jú, á morgun verð ég 27 ára gömul
búin að lifa 1/3 af þeirri ævi sem ég get búist við að náttúran hafi úthlutað mér
(þeim sem finnst þetta hljóma fáránlega vil ég benda á að 3x27 eru 81)
þar með er viðeigandi
að á þeim sama degi
taki ég formlega skrefið útí hinn fullorðna heim
orða og ábyrgðar

fullorðin
hamingjunni sé lof að ég er ég
og ég veit
að maður þarf ekki að vera leiðinlegur
þó maður sé fullorðinn

ekki að ég trúi því að maður verði nokkurn tímann fullorðinn.
það felst nefnilega í orðinu.
orðinn að fullu
að fullu orðinn
orðinn hvað?
það sem maður getur orðið
nei takk. ekki ég
ég ætla að halda áfram að verða meira og fleira
þangað til ég hætti að vera yfirleitt

og hananú!

08 september 2004

eitthvað sem ég setti saman í vor, nánar tiltekið annan dag sumars

lokaðu augunum
veröld

þú skalt liggja og
dreyma
ljósið sólina sönginn dansinn hláturinn hoppið skoppið kítlið
hana

þú skalt aldrei vakna
veröld
sofðu sofðu sofðu
rótt

aldrei
því þar er
sólin stingandi grimm
vorið trillt af bræði
nóttin þessi tilfinning í yðrum þínum sem þú óttast mest
hún farin

07 september 2004

muh

komin heim
manic monday
dauð dauð dauð í þriðja veldi
það fáránlega er
vann bara samtals 4 tíma í dag
í skólanum rúma 2 tíma
öll restin af deginum
fór í að redda einni
lítilli
ljótri
mynd
af smettinu á mér
í réttri stærð
fyrir moggan

muh!

sofa núna

05 september 2004

Fram á ritvöllinn

Úff!!!

Ég var að senda inn grein í Moggann! Ég! Hér með orðin ábyrgðarfull og nokkurn vegin fullorðin kona með skoðanir sem sendir ráðamönnum tóninn. Hananú!

míííííííík!

:D

Samsæri

Hef komist á snoðir um víðtækt og gríðarlega vel skipulagt samsæri. Nei, ekki kirkjunnar eða ríkisstjórnarinnar eða Kananna eða Norsaranna. Það mega aðrir sjá um að afhjúpa slík. Þetta samsæri er hvorki meira né minna en samsæri heillar kynslóðar gegn annarri.

Þannig var mál með vexti að þegar 68 kynslóðin var að byggja sér hús þá höfðu þau ákaflega miklar áhyggjur af því að börnin þeirra myndu aldrei kynnast þeim þrældómi og púli sem fylgir því að koma sér þak yfir höfuðið. Hugsið ykkur ef blessuð börnin gætu bara keypt sér tilbúið hús, málað og flutt inn! Nei, slíkt myndi algjörlega útrýma hinum mikilvægu vinnugildum (work ethic). Til að sporna við þessum framtíðarhörmungum datt einhverjum af 68 kynslóðinni snjallræði í hug:

VEGGFÓÐUR! Því maður málar ekki bara yfir það...
...en þau gætu rifið það aftur af! Hmmm, þá þurfum við að finna upp:

VATNSHELT VEGGFÓÐUR!!! Þú getur ekki bleytt límið, svo þú nærð því ekki af!

Snilld! Hvert parið á fætur öðru tók sig til og límdi skelfilega munstrað, vantshelt veggfóður upp um alla veggi, svo aumingja börnin þeirra, sem enn grunaði ekkert um sína dökku framtíð, fengu engu að síður martraðir um skrímslin sem þau gátu séð útúr skræpóttu mynstrinu.

Svo urðu börnin eldri. Fóru að glápa á sjónvarp í jafnvel heilan klukkutíma á dag. Ábyrgðalausa þætti eins og Prúðuleikarana og Dallas. 68 kynslóðin fór að velta því fyrir sér hvort bragðið myndi nokkuð duga. Eftir miklar pælingar komust samsærismennirnir og konurnar að einu rökréttu niðurstöðunni:

ANNAÐ LAG af VATNSHELDU VEGGFÓÐRI, YFIR HITT!!!

Og þar með var það tryggt, að fólk af okkar kynslóð fengi skilið hversu stórt og mikið mál það er að koma sér þaki yfir höfuðið. Vei þeim, illu vættum fortíðarinnar sem fundu upp veggfóður!

Jamm. Sumsé, af síðustu 5 dögum í Norge fóru:
4 í að ná tvöföldu vatnsheldu veggfóðri af veggjunum í höllinni
1 í að mála (loksins í dag!)
á morgun fæ ég svo að bera nokkra kassa... áður en ég flýg heim.

geisp!

02 september 2004

heyrnarlausar hendur

muh!
hendurnar mínar eru orðnar heyrnarlausar! þær heyra ekki í mér þegar ég segi þeim að gera eitthvað. setja mat í munninn, greiða hárið! Þær bara hreyfast ekki!
Eða kannski bara neita þær að hlusta á mig. Já kannski eru þær bara í fýlu við mig af því að ég neitaði að hlusta á þær í dag þegar þær voru að væla í mér. nenni ekki að hlusta á eitthvað handavæl.
"hættu, hættu, okkur er íllt!"
"ái, ái, ái! við erum svo þreyttar"
"nei ekki meira svona, þetta er vont"
hverjum er ekki sama hvað einhverjar hendur segja?
ég meina, voru þær ekki einmitt búnar til til að hlýða skipunum og vinna?
svo fara þær bara að væla við minnstu notkun eða hnjask!
þvílíkir aumingjar! Liggur við að maður taki þær bara af og hendi í ruslið. Ef maður gæti nú keypt sér nýjar...
en heilinn á mér er sko miklu stærri og sterkari en þær. hann sem stjórnar! þess vegna kemur ennþá tttttttteeeeeeexxxxxxxti